Gasa: öryggisráð SÞ verður að beita sér enn frekar

Ekki sér fyrir endann á hörmungunum á Gasa þrátt fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi samþykkt nær einróma ályktun 1860 þann 9.janúar síðastliðinn, um tafarlaust og varanlegt vopnahlé stríðandi fylkinga. Um 1.5 milljón óbreyttra borgara eru innilokaðir á Gasa-svæðinu þar sem þeir eru berskjaldaðir gegn mannfalli og eignaspjöllum.

Philip Luther, talsmaður Amnesty International, um ástandið á Gasa

Ekki sér fyrir endann á hörmungunum á Gasa þrátt fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi samþykkt nær einróma ályktun 1860 þann 9.janúar síðastliðinn, um tafarlaust og varanlegt vopnahlé stríðandi fylkinga. Um 1.5 milljón óbreyttra borgara eru innilokaðir á Gasa-svæðinu þar sem þeir eru berskjaldaðir gegn mannfalli og eignaspjöllum. Á fyrstu tólf dögum átakanna létu rúmlega 670 Palestínumenn lífið og um það bil 3000 særðust í árásum Ísraelsmanna. Flestir hinna látnu voru óbreyttir borgarar, þeirra á meðal mikill fjöldi barna.

Á sama tímabili létust fjórir Ísraelsmenn, þar af þrír óbreyttir borgarar og nokkrir særðust, þegar vopnaðar sveitir Palestínumanna gerðu eldflaugaárásir á borgaraleg skotmörk í suður Ísrael.

Ekkert lát er á ofbeldinu; fjöldi fallinna borgara á Gasa eykst sífellt.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur grundvallarskyldum að gegna til verndar mannréttindum og af þeim sökum verður ráðið að krefjast þess að Ísrael, Hamas og vopnaðir palestínskir hópar komi tafarlaust á vopnahléi á Gasa og bindi endi á ólögmætar árásir á borgara og hætti brotum á alþjóðlegum mannréttinda-og mannúðarlögum.

Öryggisráðið verður að krefjast aðgerða til að lina þjáningar borgara á Gasa-svæðinu og þrýsta á að hætt sé við eldflaugaárásir sem ógna lífi óbreyttra borgara í Suður-Ísrael.

Ráðið verður ennfremur að hvetja Ísraelsmenn til að heimila brýna mannúðaraðstoð til íbúa svæðisins og veita blaðamönnum og fólki sem starfar að mannúðar- og mannréttindamálum inngöngu á svæðið. Brýnt er að þeim verði hleypt þangað tafarlaust svo hægt sé að gera óháða úttekt á þörfinni fyrir neyðaraðstoð og skýra frá aðstæðum á vettvangi, þar á meðal brotum á alþjóðalögum.

Vísbendingar um mögulega stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni birtast á degi hverjum. Öryggisráðið má ekki hunsa þessar vísbendingar. Ráðinu ber að beita áhrifum sínum og krefjast sjálfstæðrar og óháðrar rannsóknar á stríðsglæpum og öðrum alvarlegum brotum á alþjóðalögum. Öryggisráðið verður að hvetja til þess að hinir ábyrgu verði sóttir til saka.

Öryggisráðið verður að tryggja að slík rannsókn fari fram án tafar og sé hrint í framkvæmd af reynslumiklum, óháðum sérfræðingum. Slíkir aðilar verða að vera vel útbúnir og tilbúnir að fara vítt og breitt um átakasvæðið um leið og öryggisaðstæður leyfa.

Stríðandi aðilar verða að axla fulla ábyrgð á stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni.

Palestínumenn syrgja látna eftir árásir Ísraela á Gasa í janúar 2009

Ályktun 1860 sem samþykkt var af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku tekur ekki á mannréttindabrotum eða brotum á mannúðarlögum, né heldur hvetur til rannsókna á slíkum brotum. Það er blettur á starfi öryggisráðsins hunsi það að taka á stríðsglæpum og öðrum alvarlegum brotum á alþjóðalögum í þessum átökum.

Kröfur Amnesty International

Amnesty International hvetur alþjóðasamfélagið til að koma tafarlaust á vopnahléi sem virt er af Ísraelsmönnum, Hamas og vopnuðum sveitum Palestínumanna, þar til skilvirku ferli er komið á sem tryggir að vopn og önnur hergögn verði ekki notuð í trássi við alþjóðleg mannúðarlög. Tryggja verður að meint brot sæti óháðri rannsókn og hinir ábyrgu sóttir til saka.

Uppspretta hergagna

Ísrael framleiðir töluvert af hefðbundnum vopnum, og heyrir til tíu stærstu útflutningslanda á vopnum í veröldinni en landið flytur einnig töluvert inn af hergögnum og hertækniþekkingu. Bandaríkjamenn hafa verið langstærsti birgðaaðili vopna til Ísraels, allt frá árinu 2001 en þeir hafa jafnframt reitt fram háa styrki til framleiðslu vopna. Önnur lönd eins og Þýskaland, Frakkland og Bretland hafa ennfremur flutt vopn til Ísrael þó í mun minna mæli sé.

Fyrir tilstuðlan pólitísks þrýstings í nokkrum Evrópusambandslöndum sem láta sig átökin nokkru varða, hafa lönd eins og Bretland ogÞýskaland almennt dregið úr úflutningi hefðbundinna vopna. Engu að síður sýna útflutningstölur að þessi lönd hafa flutt út vopn og farartæki til ísraelskra fótgönguliða, auk annarra hergagna.

Aðrir útflytjendur vopna og hergagna til Ísraels frá árinu 2001 eru Spánn, Slóvakía, Tékkland, Kanada, Slóvenía, Ástralía, Rúmenía, Austurríki, Belgía, Ungverjaland, Svartfjallaland og Bosnía-Hersógóvína. Holland hefur einnig verið einn megin útflutningsaðili hergagna til Ísraels. Hafa ber í huga að þessi listi er ekki tæmandi.

Hamas og aðrar vopnaðar sveitir Palestínumanna hafa smyglað handvopnum,léttvopnum og eldflaugum inn á Gasa-svæðið í gegnum Egyptaland. Ekki er vitað hvar þetta vopnasafn Palestínumanna á upptök sín. 

Svonefndar „Katyusha“ eldflaugar eru upprunalegar smíðaðar í Rússlandi en ólíklegt er þær eldflaugar sem vopnaðar sveitir Palestínumanna hafa undir höndum séu komnar beint frá Rússlandi.

Í samanburði við Ísraelsmenn er vopnaeiga og innflutningur Palestínumanna á vopnum af skornum skammti. Eldflaugnavopnabúr svipað því sem Hizbullah hreyfingin í Líbanon bjó yfir í stríðinu gegn Ísrael árið 2006 er ekki tiltækt vopnuðum sveitum Palestínumanna.

Amnesty International fer fram á eftirfarandi:

1.     Verndum óbreyttra borgara

Ísrael, Hamas og vopnaðir palestínskir hópar hætti tafarlaust ólögmætum árásum, en til þeirra teljast árásir Ísraela á borgaraleg skotmörk, árásir sem eru í engu samræmi við aðsteðjandi ógn og eldflaugaárásir Palestínumanna á þéttbyggð svæði í Ísrael.

Allir aðilar verða á öllum tímum að taka tillit til heilbrigðisstarfsfólks og aðstöðu þess. Ísraelsk yfirvöld verða sérstaklega að veita sjúkrabílum óhindrað fararleyfi, öllum stundum, til að sækja hina særðu og látnu.

Ísraelsk stjórnvöld verða að heimila fólki sem starfar að mannúðar- og mannréttindamálum og blaðamönnum óheftan aðgang á Gasa-svæðið

2.     Mannúðaraðstoð til borgara

Allir aðilar að átökunum verða að sættast á nægilega langt vopnahlé svo mannúðaraðstoð geti borist til Gasa og skilað sér til sem flestra; til að hinir særðu geti hlotið viðhlítandi læknishjálp; og til að óbreyttir borgarar geti yfirgefið átakasvæðið og komist í öruggt skjól.

Í samræmi við alþjóðlegar skyldur ísraelskra stjórvalda verða þau að tryggja að palestínskir borgarar geti flúið á Vesturbakkann og komist þar í öruggt skjól.

Þá verða stjórnvöld í Egyptalandi að standa við skuldbindingar sínar og veita

Palestínumönnum skjól sem vilja flýja átökin.

3.     Rannsókn og ábyrgð

Alþjóðlegar stofnanir og ríki verða að tryggja að óháðri rannsókn á alþjóðlegum mannréttinda-og mannúðarlögum sé tafarlaust hrint af stað.

Vísbendingar um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni hrannast upp á hverjum degi og draga verður hina ábyrgu til saka.

4. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar

Ríki og ríkjasamtök verða án tafar að senda fólk sem hefur eftirlit með mannréttindabrotum til Gasa og Suður-Ísrael og það verður að fá umboð til að rannsaka og skrá brot allra aðila á mannréttinda-og mannúðarlögum.