Georgía/Rússneska sambandslýðveldið

Mannúðarsamtök greina frá því að þau fái enn ekki að senda hjálpargögn til umdeildu svæðanna í Suður-Ossetíu. Óttast er að borgarar í héraðinu geti orðið sjúkdómum og hungri að bráð.

Mannúðarsamtök greina frá því að þau fái enn ekki að senda hjálpargögn til umdeildu svæðanna í Suður-Ossetíu. Óttast er að borgarar í héraðinu geti orðið sjúkdómum og hungri að bráð. Fregnir hafa einnig borist af því að bág öryggismál valdi því að erfitt sé að ná til flóttafólks á sumum svæðum í Georgíu, þar á meðal í borginni Gorí.

Talið er að yfir 150.000 manns hafi neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna átakanna, samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þann 18. ágúst höfðu georgísk yfirvöld skráð um 70.000 einstaklinga sem voru á flótta, en töldu að heildarfjöldi fólks sem hrakist hefði á brott vegna átakanna væri líklega miklu hærri.

 

SÞ segja að ástand mannúðarmála í Georgíu sé „skelfilegt“. En fyrsta bílalest SÞ fékk ekki að fara til Gorí í Vestur-Georgíu fyrr en þann 17. ágúst. Rússnesk hjálparteymi segja að ástandið í Tskinvalí, höfuðborg Suður-Ossetíu, sé „hörmulegt“ vegna skemmda á borgarinnviðum og spítala borgarinnar. En alþjóðlegum mannúðarsamtökum hefur enn ekki verið hleypt inn í Suður-Ossetíu. Flóttamannastofnun SÞ tjáði Amnesty International þann 18. ágúst að beðið væri eftir að geta farið til Suður-Ossetíu. Þann 19. ágúst skýrði Alþjóða Rauði krossinn frá því að hann biði eftir að öryggisskuldbindingar yrðu virkar í Suður-Ossetíu og á sumum svæðum í Vestur-Georgíu, áður en hægt væri að meta þarfir fólks og senda hjálpargögn.

Amnesty International hefur einnig áhyggjur af því að sumar sprengjuárásirnar, sem gerðar voru meðan á átökum stóð, hafi verið handahófskenndar eða beinlínis beint gegn borgurum. Slíkt telst til stríðsglæpa. Þar á meðal má telja árás Georgíuhers á Tskinvalí þann 8. ágúst, þar sem sprengjum var varpað á borgina í 14 klukkustundir. Rússneski herinn hóf árásir á skotmörk í Georgíu þann 9. ágúst, sérstaklega í borginni Gorí.

 

Óbreyttir borgarar í Georgíu og Rússneska sambandslýðveldinu eiga á hættu að verða fyrir árásum á grundvelli uppruna. Frá Rússlandi koma fréttir af því að Georgíumenn sæti miklu ofbeldi í Norður-Ossetíu og Moskvu. Þann 11. ágúst bárust fréttir af því að kveikt hafi verið í veitingahúsi í Nasran í Ingúsétíu sem hafði georgíska rétti á boðstólum. Frá því átökum lauk hafa borist fregnir af nýstofnuðum hópum vopnaðra manna, í og kringum Suður-Ossetíu, sem fremja glæpi án þess að sæta refsingu. Slíkt eykur enn á hættuna fyrir óbreytta borgara. Þorp í Suður-Ossetíu, sem byggð eru Georgíumönnum, hafa verið brennd.

Þann 12. ágúst, eftir fimm daga átök í átakahéruðunum Suður-Ossetíu og Abkasíu, og í Georgíu sjálfri, samþykktu Rússland og Georgía vopnahlé. Georgía og Rússland skrifuðu undir vopnahléssamkomulagið dagana 15-16. ágúst.

 

Vinsamlega skrifið undir og sendið bréfin hér að neðan til stjórnvalda í ríkjunum tveimur og hvetjið þau til að:

 

tryggja að vistir berist þeim sem þurfa;

sjá til þess að fólk sem flúið hefur heimili sín geti snúið þangað aftur án þess að eiga frekara ofbeldi yfir höfði sér og að engar hefndarárásir á minnihlutahópa verði liðnar í löndunum;

sjá til þess að fram fari óháð rannsókn á ásökunum um brot á alþjóðlegum mannréttinda- og mannúðarlögum meðan á átökum stóð.

 

Bréf til forseta Georgíu

Bréf til forseta Rússneska sambandslýðveldisins

 

Vinsamlega sendið afrit af bréfinu til Rússlandsforseta á:

 

Sendiráð Rússneska sambandslýðveldisins

Garðastræti 33

101 Reykjavík