Góðar fréttir af Bréfamaraþoninu 2015

Bréfamaraþon Amnesty International er einn stærsti mannréttindaviðburður heims og sönnun þess að í krafti fjöldans er unnt að umturna lífi fólks sem sætir grófum mannréttindabrotum. 

Bréfamaraþon Amnesty International er einn stærsti mannréttindaviðburður heims og sönnun þess að í krafti fjöldans er unnt að umturna lífi fólks sem sætir grófum mannréttindabrotum. Á síðasta ári sendu einstaklingar um heim allan 3,7 milljónir bréfa, korta, smáskilaboða og tölvupósta í þágu þolenda pyndinga, samviskufanga, fanga á dauðadeild og kvenna og stúlkna sem neyddar eru í hjónabönd. 
Árangurinn lét sannarlega ekki á sér standa. Albert Woodfox, sem sat í einangrunarvist í fjóra áratugi í Louisiana, var leystur úr haldi þann 19. febrúar 2016.  Hann lét eftirfarandi orð falla þegar hann var laus úr prísundinni: „skilaboð ykkar utan veggja fangelsisins reyndust rík uppspretta að innri styrk fyrir mig.“ 
Þá var Yecenia Armenta frá Mexíkó leyst úr haldi í júní 2016 en hún sætti grimmilegum pyndingum í fimmtán klukkustundir af hálfu lögreglu í heimalandi sínu. Þessi hugrakka kona beindi þessum orðum sínum til allra þeirra sem lögðu máli hennar lið: „ég þakka ykkur af öllu hjarta. Án ykkar stuðnings hefði þetta ekki verið hægt. Takk fyrir að hætta ekki baráttunni. Stundum tekur langan tíma að ná fram réttlæti en það tekst oft að lokum.“ 
Mál Phyoe Phyoe Aung var ennfremur hluti af bréfamaraþoni síðasta árs en hún var handtekin í mars 2015 ásamt rúmlega hundrað námsmönnum sem stóðu fyrir friðsömum mótmælum gegn nýjum lögum í Mjanmar. Phyoe Phyoe Aung átti yfir höfði sér allt að níu ára fangelsisdóm þegar að þið, meðal annarra, hófuð að berjast fyrir réttlæti hennar og unnuð stórkostlegan sigur. Í apríl 2016 hlaut Phyoe Phyoe Aung frelsi og við það tilefni sagði hún eftirfarandi: „bréf ykkar eru ekki eingöngu bréf. Þau eru risastórar gjafir og mikill styrkur, ekki aðeins fyrir nemendur í Mjanmar heldur fyrir framtíð landsins.“ 
Þá er ástæða til að fagna lausn samviskufangana Fred Bauma og Yves Makwambala sem börðust fyrir lýðræðislegum umbótum í Lýðveldinu Kongó en þeim var haldið föngum í Makala-fangelsinu í Kinshasa. Þeir voru báðir leystir úr haldi þann 25. ágúst 2016. 
Síðast en ekki síst urðum við vitni að heiti stjórnvalda í Búrkína Fasó um að uppræta og koma í veg fyrir þvinguð og snemmbær hjónabönd þar í landi. Ljóst er að þessi sigur er tilkominn vegna þrýstings aðgerðasinna í gegnum Bréfamaraþon Amnesty. 
Fleiri þurfa nú hjálpar þurfi. Ekki láta þitt eftir liggja á aðventunni í baráttunni fyrir betri heimi. Taktu þátt í að halda Bréfamaraþon í þínu sveitafélagi.
Það kann að vera auðvelt fyrir stjórnvöld að hunsa eitt bréf en þegar milljónir slíkra bréfa berast, eins og á Bréfamaraþoni Amnesty International, er erfitt að líta undan. Bréfin bera árangur. Bréfin bjarga lífi.