Góðar fréttir: baráttumaður fyrir réttindum frumbyggja í Mexíkó leystur úr haldi

Amnesty International fagnar því að mexíkóskur baráttumaður fyrir réttindum frumbyggja hafi verið látinn laus úr fangelsi eftir tveggja ára fangelsisvist fyrir upplognar morðákærur.

 

Amnesty International fagnar því að mexíkóskur baráttumaður fyrir réttindum frumbyggja hafi verið látinn laus úr fangelsi eftir tveggja ára fangelsisvist fyrir upplognar morðákærur.

Dómari í Guerrero-ríki sýknaði Raúl Hernández föstudaginn 27. ágúst og var honum sleppt samdægurs úr fangelsi.

Málareksturinn gegn Raúl Hernández er hluti af herferð mexíkóskra stjórnvalda gegn félögum í Frumbyggjasamtökum Me'phaa (Organización del Pueblo Indígena Me’phaa, OPIM), sem berjast fyrir mannréttindum sínum.

Raúl Hernández lét svo um mælt: „Ég vil þakka Amnesty International og fólki í mörgum löndum sem barðist fyrir frelsi mínu“.

Amnesty International hefur barist fyrir því að Raúl Hernández verði leystur úr haldi frá því í nóvember 2008, en þá lýstu samtökin því yfir að hann væri samviskufangi.

 

Raúl Hernández

 

Um 116.000 Me’ phaa frumbyggjar búa í Guerrero-ríki í sunnanverðu Mexíkó. Þessir frumbyggjar búa við ein verstu lífskjör allra þjóðfélagshópa í Mexíkó að sögn mannréttindasamtaka sem starfa á svæðinu.

OPIM var stofnsett árið 2002 til að verja og efla réttindi Me’ phaa frumbyggja.

Amnesty International hefur fylgst með og skrásett hótanir og áreitni gegn félögum í réttindasamtökum frumbyggja í Guerrero-ríki um margra ára skeið.