Góðar fréttir: baráttumaður úr hættu eftir skyndiaðgerð Amnesty International

Brasilísk samtök þökkuðu Amnesty International nýverið fyrir aðgerð samtakanna, sem leiddi til þess að morðhótunum linnti í garð fátæks bónda og baráttumanns fyrir landréttindum.

Brasilísk samtök þökkuðu Amnesty International nýverið fyrir aðgerð samtakanna, sem leiddi til þess að morðhótunum linnti í garð fátæks bónda og baráttumanns fyrir landréttindum. Lögregla rannsakar nú hótanirnar gegn José Luís da Silva, eiginkonu hans, Severina dos Santos Silva, og fjölskyldu þeirra.

José Luís da Silva og fjölskylda hans fékk morðhótanirnar í tengslum við réttarhöld yfir fjórum mönnum sem fjölskyldan telur tengjast árás á þau í desember 2007. Fjölskyldan telur að ráðist hafi verið á hana vegna baráttu hennar fyrir landréttindum, sem hefur leitt til langvarandi ágreinings við stórbónda.

Fjölskyldan hefur búið í smábændasamfélagi á Quirino-jörðinni í Paraiba-ríki í yfir 20 ár. Árið 1998 kváðu yfirvöld upp þann úrskurð að smábændurnir ættu rétt á landinu, en eigandi jarðarinnar hafði áður hótað bændunum brottrekstri.

Eigandinn hefur barist gegn úrskurði stjórnvalda fyrir dómstólum og að sögn hótað og ofsótt smábændurna, sem sumir hafa búið á jörðinni í allt að 50 ár.

Amnesty International sendi út skyndiaðgerðabeiðni í janúar 2009 og bað félaga í skyndiaðgerðanetinu að grípa til aðgerða. Brasilísku félagsamtökin Associação de apoio aos asentamentos e comunidades quilombolas (Stuðningssamtök fyrir landnema og quilombola-samfélög), sem styðja fjölskyldurnar á Quirino-jörðinni, sögðu að aðgerð Amnesty International hefði haft áhrif um leið.

„Í kjölfar skyndiaðgerðarinnar var skipaður sérstakur rannsóknarfulltrúi lögreglunnar til að fylgja eftir rannsókn á árásinni á Silva-fjölskylduna. Brasilísk alríkisyfirvöld og yfirvöld í ríkinu brugðust við eftir að bréf bárust frá félögum í Amnesty International víða um heim.

Önnur afleiðing aðgerðarinnar var að sendur var út sjónvarpsþáttur þann 14. apríl síðastliðinn, sem bar heitið „Ég vil réttlæti“. Þar voru málefni Quirino-jarðarinnar rædd ítarlega og með óhlutdrægum hætti í fyrsta sinn. Þriðja og mikilvægasta afleiðingin er að mjög hefur dregið úr hótunum“.

Gerstu félagi í skyndiaðgerðanetinu !

LESTU MEIRA

Urgent Action: Brazil: Fear for safety (8 January 2009)