Góðar fréttir: Bretland greiðir skaðabætur til manns sem ranglega var bendlaður við hryðjuverk

Amnesty International fagnar ákvörðun breskra stjórnvalda um að greiða skaðabætur til flugkennarans Lotfi Raissi, sem var ranglega ásakaður um að hafa þjálfað flugræningjana sem gerðu árásir í Bandaríkjunum þann 11. september 2001.

Lotfi Raissi

Amnesty International fagnar ákvörðun breskra stjórnvalda um að greiða skaðabætur til flugkennarans Lotfi Raissi, sem var ranglega ásakaður um að hafa þjálfað flugræningjana sem gerðu árásir í Bandaríkjunum þann 11. september 2001.

Raissi var handtekinn í september 2001 og haldið í fangelsi meðan bandarísk stjórnvöld reyndu að fá hann framseldan fyrir minni háttar ákærur ótengdar hryðjuverkum.

Dómari skipaði svo fyrir í apríl 2002 að hann skyldi leystur úr haldi vegna þess að „alls engin sönnunargögn“ bentu til þess að hann tengdist hryðjuverkum.

Þann 23. apríl 2010 tjáði breska dómsmálaráðuneytið Lotfi Raissi í gegnum lögfræðing hans að nafn hans hefði verið algerlega hreinsað af ásökunum, rúmlega átta árum eftir að hann var fyrst handtekinn.

Í kjölfar þessa getur Raissi sótt um skaðabætur, en óháður matsaðili mun ákveða upphæðina.

Lotfi Raissi tjáði Amnesty International í gegnum lögfræðing sinn eftir að nafn hans var loks hreinsað: „Ég er himinlifandi. Ég hef beðið eftir þessu í níu ár. Ég vona að yfirlýsing stjórnvalda eyði öllum grunsemdum í minn garð sem hafa svo lengi spillt fyrir lífi mínu.“

Lögfræðingur Lotfi Raissi, Jules Carey, sagði við Amnesty International: „ásakanirnar um hryðjuverk hafa lagt líf hr. Raissi í rúst, bæði einkalíf hans og atvinnu“ og að hann vonaði að ákvörðunin um að greiða honum skaðabætur markaði nýtt upphaf þannig að hann gæti byrjað að byggja nýtt líf á rústum hins gamla.

Áfrýjunarréttur komst að þeirri niðurstöðu þann 14. febrúar 2008 að yfirvöld yrðu að taka aftur fyrir kröfu Lotfi Raissi um skaðabætur. Rétturinn sagði að allur málatilbúnaður við framsalsbeiðnina væri réttarbrot og ætlunin hefði verið að nota hana sem tæki til að fara á svig við lög í landinu.

Lofti Raissi var handtekinn þann 21. september 2001 á grundvelli upplýsinga sem bandarísk stjórnvöld veittu til breskra stjórnvalda.

Honum var sleppt eftir að hafa verið yfirheyrður í sjö daga og handtekinn strax aftur vegna framsalsbeiðni frá bandarískum stjórnvöldum.

Hann var aldrei ákærður fyrir nein brot í tengslum við hryðjuverk og framsalsbeiðnin virðist hafa verið tilkomin til að hægt yrði að yfirheyra hann í Bandaríkjunum í tengslum við árásirnar 11. september.

LESTU MEIRA

Court win for man wrongly accused of terrorism (News, 20 February 2008)
UK: Human rights: a broken promise (Document, 23 February 2006)