Dauðadómum um 4.000 Keníubúa var breytt í lífstíðarfangelsi þann 3. ágúst síðastliðinn.
Mwai Kibaki
Dauðadómum um 4.000 Keníubúa var breytt í lífstíðarfangelsi þann 3. ágúst síðastliðinn.
Forseti landsins, Mwai Kibaki, sagði í ávarpi sem hann flutti í ríkisútvarpi landsins að „langvarandi vist á dauðadeild getur valdið óeðlilegu andlegu álagi og þjáningu, sálrænu áfalli, kvíða, og getur talist ill meðferð“.
Hann skipaði svo fyrir að gerð skyldi opinber rannsókn á því hvort dauðarefsingin hafi haft einhver áhrif í baráttunni gegn glæpum. Hann sagði einnig að ákvörðunin um að milda dómana þýddi ekki að dauðadómar yrðu afnumdir í Kenía.
Dauðadómur liggur enn við glæpum á borð við vopnuð rán og morð, en dauðarefsingunni hefur ekki verið beitt í landinu í 22 ár.
Amnesty International telur þessa ákvörðun skref í rétta átt í mannréttindamálum í Kenía. Tími er kominn til að Kenía sláist í hóp meirihluta ríkja heimsins og afnemi dauðadóma.
Ekki hafa jafn margir dómar áður verið mildaðir í einu nokkurs staðar í heiminum. Fyrra met var í Pakistan, en þar voru yfir 2.000 dómar mildaðir í einu árið 1988.
Dómsmálaráðherra Kenía lýsti því yfir í mars 2005 að kenísk stjórnvöld hefðu í hyggju að afnema dauðarefsinguna. Þing landsins felldi tillögu þess efnis í ágúst 2007.
Í Kenía eru nú 92 fangelsi, sem byggð voru til að hýsa um 17.000 fanga. Heildarfjöldi fanga í landinu er nú um 48.000. Í fáum löndum heimsins eru fangelsi jafn ofsetin og fjársvelt.
