Dómstóll í Slóvakíu bannaði nýverið aðskilnað Róma-barna í grunnskóla í þorpinu Šarisské Michaľany, í Prešov héraði. Um tímamótadóm er að ræða.
Dómstóll í Slóvakíu bannaði nýverið aðskilnað Róma-barna í grunnskóla í þorpinu Šarisské Michaľany, í Prešov héraði. Um tímamótadóm er að ræða. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að umræddur skóli hafi mismunað börnum af Róma-uppruna, með því að kenna þeim í aðskildum kennslustofum, án haldbærs rökstuðnings. Dómstóllinn komst að þessari niðurstöðu þann 3. janúar 2012.
Að sögn Amnesty International er þetta í fyrsta sinn sem dómstóll í Slóvakíu tekur fyrir útbreidda og ólögmæta aðgreiningu Róma-barna í skólum landsins, sem hefur áhrif á líf þúsunda barna, dæmir þau til lifa á jaðri samfélagsins og í vítahring fátæktar. Í áraraðir hagaði umræddur grunnskóli í Slóvakíu skólastarfinu þannig að börn af Róma-uppruna sátu í aðgreindum kennslustofum á annarri hæð en meginþorri nemenda sótti nám sitt annars staðar í skólanum. Ástandið versnaði enn frekar á skólaárinu 2008/2009 þegar skólayfirvöld ákváðu að aðgreina einnig þau börn af Róma-uppruna sem fram til þessa höfðu sótt blandaða bekki.
Það er von samtakanna að dómurinn eigi eftir að vekja yfirvöld í fleiri skólum í landinu til vitundar um nauðsyn þess að tryggja jafnræði allra í námi, óháð menningu eða uppruna. Þá skylda alþjóðalög stjórnvöld til að styðja skólana að fullu í þessum tilgangi. Mismunun og aðgreining í skólum stríðir gegn alþjóðlegum mannréttindaákvæðum.
Amnesty International hefur um árabil barist gegn aðskilnaði og mismunun Róma-barna í skólum í Slóvakíu. Í september árið 2010 sendi Amnesty International tilmæli til ríkisstjórnar Slóvakíu um Aðgerðir til að binda enda á aðskilnað í menntakerfinu[1] (Steps to end segregation in education). Þar sýndu samtökin m.a. fram á alvarlega bresti á framkvæmd og eftirliti með banni við mismunun og aðskilnaði í skólum landsins.
Íslandsdeild Amnesty International tekur þátt í þessari baráttu og stóð m.a. fyrir undirskriftasöfnun til forsætisráðherra landsins, Iveta Radiĉová, í október 2010 þar sem hann var hvattur til að grípa til aðgerða til að styrkja bannið við mismunun og aðskilnað Róma-barna í slóvakískum skólum. Íslandsdeildin stóð ennfremur fyrir mótmælaaðgerð við heimsókn Ivan Gasparovic forseta Slóvakíu þegar hann sótti Ísland heim í september 2010.
[1] http://www.amnesty.org/en/library/asset/EUR72/009/2010/en/52a9589e-dce0-459f-abf4-98e3fe67f528/eur720092010en.pdf
