Góðar fréttir: egypskur bloggari leystur úr haldi

Amnesty International fagnar því að egypskur bloggari hafi verið leystur úr haldi. Hann var handtekinn eftir að hann ýjaði að frændhygli innan herafla landsins á bloggi sínu.

Amnesty International fagnar því að egypskur bloggari hafi verið leystur úr haldi. Hann var handtekinn eftir að hann ýjaði að frændhygli innan herafla landsins á bloggi sínu.

Samtökin lýsa yfir áhyggjum sínum af því að bloggarinn, Ahmed Mostafa, hafi verið látinn laus með því skilyrði að hann bæðist afsökunar á bloggfærslunni og tæki hana af bloggi sínu. Færslan birtist í mars 2009 undir fyrirsögninni Matha Assabaka ya Watan (Hvað komi fyrir þig, ó þjóð?).

Hann átti að koma fyrir herrétt í annað sinn sunnudaginn 7. mars og hefði getað sætt allt að níu og hálfs árs fangelsi.

Ahmed Mostafa er fyrsti egypski bloggarinn sem leiddur er fyrir herrétt fyrir skrif sín. Hann birti færslu í kjölfar þess að honum var sleppt úr haldi þar sem hann ráðlagði öðrum bloggurum að athuga upplýsingar sínar áður en þeir birtu þær á netinu.

Lögfræðingar hans segja að þeir hafi ekki fengið að vita ástæður þess að honum var sleppt úr haldi og yfirvöld hafa ekki vísað málinu frá og því gæti það verið tekið upp að nýju síðar.

Ahmed Mostafa er verkfræðinemi við Kafr El Sheikh-háskóla. Hann var ákærður fyrir að birta hernaðarleyndarmál á netinu, birta falskar upplýsingar um herinn og móðga hermenn, er sjá um innskráningu í herskóla landsins.

Í umræddri færslu var sögð saga af nema við herskólann, sem að sögn hafði verið neyddur til að hætta námi við skólann til að annar umsækjandi gæti komist að. Ásakanir um frændhygli komu fram vegna málsins.

Að sögn lögfræðinga á vegum Arabísku samtakanna um mannréttindaupplýsingar handtóku leyniþjónustumenn Ahmed Mostafa fyrst þann 17. febrúar og spurðu hann út í bloggsíðuna.
Amnesty International áleit Ahmed Mostafa vera samviskufanga og hvatti til þess að hann yrði leystur úr haldi.

Aðrir egypskir bloggarar hafa einnig verið ákærðir fyrir bloggfærslur sínar.

Karim Amer, sem Amnesty International telur vera samviskufanga, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í febrúar 2007 fyrir að gagnrýna Hosni Mubarak forseta og trúarleg yfirvöld í landinu á bloggi sínu.

Annar samviskufangi, Hani Nazeer, hefur verið í haldi yfirvalda frá því í október 2008 fyrir bloggfærslu þar sem hann birti kápumynd af bók, sem talin er vera móðgandi í garð múslima.