Góðar fréttir: fallið frá ákærum gegn baráttukonu fyrir mannréttindum í Aserbaídsjan

Yfirvöld í Aserbaídsjan hafa hætt við lögsókn gegn þekktri baráttukonu fyrir mannréttindum.

Leila Yunus, sem er framkvæmdastjóri Friðar- og lýðræðisstofnunarinnar, veitti fréttasíðunni www.day.az viðtal þar sem komu fram staðhæfingar um mannréttindabrot í réttarhöldum sem hún fylgist með.

Leila Yunus (© Institute for Reporter Freedom and Safety)

Yfirvöld í Aserbaídsjan hafa hætt við lögsókn gegn þekktri baráttukonu fyrir mannréttindum.

Leila Yunus, sem er framkvæmdastjóri Friðar- og lýðræðisstofnunarinnar, veitti fréttasíðunni www.day.az viðtal þar sem komu fram staðhæfingar um mannréttindabrot í réttarhöldum sem hún fylgist með.

Þann 13. desember 2008, fimm dögum eftir að viðtalið birtist, höfðaði innanríkisráðuneyti landsins mál á hendur henni fyrir ærumeiðingar. Ráðuneytið fullyrti að staðhæfingar hennar í viðtalinu væru „ekki á rökum reistar, hugarburður og ærumeiðandi“ og krafðist þess að hún greiddi 100.000 manat (tæpar 11 milljónir íslenskra króna) í skaðabætur.

Amnesty International lýsti því yfir að ákæran væri óviðunandi atlaga gegn tjáningarfrelsinu og starfi baráttufólks fyrir mannréttindum og fagnar ákvörðun ráðherra að hætta við lögsókn gegn Leila Yunus.

Sakborningar í réttarhöldunum, sem Leila Yunus fylgdist með, voru Tavakkul, Elnur og Elchin Ismailov. Ákæran gegn þeim laut að þremur horfnum stúlkum, þeim Diliafruz Dashtieva og systrunum Nailia og Reikhan Medzhidova, í Devechi-hverfi í Bakú. Tvö lík fundust og yfirvöld staðhæfðu að það væru lík tveggja af stúlkunum þremur. En fjölskyldur stúlknanna drógu í efa að þetta væru lík stúlknanna og hafa lýst áhyggjum af því að stúlkurnar séu á lífi og þeim hafi verið rænt og seldar mansali.

Ásakanir Leila Yunus um mannréttindabrot í réttarhöldunum lúta að því að dómari hafi ekki látið rannsaka fullyrðingar hinna ákærðu um að þeir hafi verið pyndaðir og látnir sæta annarri illri meðferð. Einnig komu fram ásakanir um að aðstoðaryfirmaður lögreglunnar í Devechi-hverfi hafi skipað fyrir um að stúlkunum skyldi rænt.

Leila Yunus hélt blaðamannafund með foreldrum stúlknanna sem hurfu og foreldrum hinna ákærðu þann 5. desember. Rétturinn kallaði aðstoðaryfirmann lögreglunnar í Devechi-hverfi til yfirheyrslu, en hann neitaði því að sögn að hafa gert nokkuð rangt. Ekki er vitað um neina aðra rannsókn á meintri aðild lögreglumannsins að mansali.

Foreldrar systranna tveggja skýrðu frá því í desember 2008 að þeim hefðu borist símahótanir frá ónafngreindum mönnum og að þeir óttuðust um öryggi fjölskyldna sinna.

Amnesty International hefur hvatt til þess að fram fari tafarlaus, ítarleg og óháð rannsókn á ásökunum um pyndingar og illa meðferð á hinum ákærðu og mögulegri aðild lögreglu að mansali. Sú rannsókn verður að vera með öllu óháð innanríkisráðuneyti landsins.