Góðar fréttir: Fórnarlambi nauðgunar hlíft við svívirðilegri refsingu 

Hætt hefur verið við að refsa 15 ára stúlku, sem
var nauðgað á Maldíveyjum.

Hætt hefur verið við að refsa 15 ára stúlku, sem var nauðgað á Maldíveyjum. Hún var dæmd til að þola 100 svipuhögg vegna „hórdóms“. Við segjum að stúlkan hafi aldrei átt að vera lögsótt yfirhöfuð.

Sms-félagar okkar þrýstu á stjórnvöld á Maldíveyjum í mars 2013 og við vorum að fá þessar frábæru fréttir nú í ágúst 2013!

Hæstiréttur Maldíveyja ógilti dóm sem hljóðaði upp á 100 svipuhögg og stofufangelsi sem stúlkan fékk fyrir að hafa stundað kynlíf utan hjónabands. Hún var sakfelld fyrir „hórdóm“ í febrúar á þessu ári en að sögn var hún ítrekað misnotuð kynferðislega af stjúpföður sínum.

Ógilding á dómnum var það eina rétta í stöðunni. Það er léttir að stúlkunni hafi verið hlíft við þessari ómannúðlegu refsingu og hin svívirðilega sakfelling ógilt.

Engin(n) ætti að vera ákærð(ur) fyrir kynlíf utan hjónabands.  Auk þess þurfa fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar á ráðgjöf að halda en ekki refsingu. Yfirvöld verða að tryggja að hún fái áfram aðgang að viðeigandi stuðningi.

Hýðingar eru brot á banni gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð. Yfirvöld á Maldíveyjum þurfa að uppfylla alþjóðlegar lagaskyldur sínar. Þau þurfa að banna hýðingar, ógilda alla hýðingardóma sem fallið hafa og tryggja að hegningarlög leyfi ekki ákæru eða refsingu fyrir „hórdóm“.  Lögsókn fyrir „hórdóm“ brýtur gegn rétti einstaklinga til einkalífs, tjáningafrelsis og sjálfræðis yfir eigin líkama. Á Maldíveyjum eru slíka lögsóknir hlutfallslega mest notaðar gegn konum.

Bakgrunnur

Stúlkan var fyrst handtekin í júní 2012 eftir að lík barns sem hún hafði fætt fannst grafið fyrir utan heimili hennar á Feydhoo-eyju. Eftir því sem fréttir herma var stjúpfaðir hennar ákærður fyrir kynferðislega misnotkun og morð og móðir hennar einnig fyrir að hylma yfir glæp.

Unglingadómstóll í Malé, höfuðborg Maldíveyja, dæmdi stúlkuna þann 25. febrúar 2013 til að sæta 100 svipuhöggum og 8 mánaða stofufangelsi fyrir „hórdóm“. Dómstóllinn hélt því fram að úrskurðurinn væri ótengdur kynferðislegri misnotkun stjúpföðurs hennar.

Árið 2009 höfðu verið kveðnir upp 180 dómar um hýðingar vegna „hórdóms“ á Maldíveyjum. Sumir hinna dæmdu höfðu sætt nauðgun eða kynferðislegri misnotkun. Fréttaflutningur fjölmiðla gefur til kynna að 90% þeirra sem dæmdir voru fyrir „hórdóm“ á Maldíveyjum árið 2011 hafi verið konur. 

Sjá hér tengil á upphaflegu aðgerð okkar: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/sms—mal/nr/2486