Amnesty International fagnar því að hvítrússneska andófs- og rokktónlistarmanninum Igor Koktysh hafi verið sleppt eftir tvö og hálft ár í varðhaldi í Úkraínu.
Igor Koktysh og Irina kona hans eftir að honum var sleppt úr varðhaldi
Amnesty International fagnar því að hvítrússneska andófs- og rokktónlistarmanninum Igor Koktysh hafi verið sleppt eftir tvö og hálft ár í varðhaldi í Úkraínu.
Igor Koktysh hafði setið inni frá því í júní 2007 í tengslum við framsalsbeiðni stjórnvalda Hvíta-Rússlands. Ástæðan var morðákæra í Hvíta-Rússlandi í janúar 2001, en hann var sýknaður af þeirri ákæru árið 2002.
Amnesty International telur að hvítrússnesk yfirvöld hafi lagt fram ákæruna vegna baráttu hans fyrir umbótum í landinu. Samtökin sögðu hann vera samviskufanga meðan hann sat í varðhaldi.
Igor Koktysh þakkaði Amnesty International „fyrir aðgerðir ykkar“. Hann sagðist enn vera að aðlagast frelsinu og að nú skipti hann mestu að huga að heilsu sinni.
Igor Koktysh var leystur úr haldi í kjölfar úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu þann 10. desember 2009. Hann lagði mál sitt fyrir dómstólinn í október 2007.
Mannréttindadómstóllinn sagði í niðurstöðu sinni að ekki ætti að framselja Igor Koktysh til Hvíta-Rússlands, því hann gæti sætt pyndingum eða annarri illri meðferð þar, fengið óréttlát réttarhöld og verið dæmdur til dauða.
Igor Koktysh sat í varðhaldi í Hvíta-Rússlandi frá janúar 2001 til desember sama ár. Hann var að sögn pyndaður og hlaut illa meðferð í varðhaldi. Meðal annars var hann laminn, læstur nakinn í frostköldum klefa og sviptur nauðsynlegum astmalyfjum til að þvinga hann til játninga.
Igor Koktysh sagði Amnesty International að rannsóknarlögreglumaðurinn, sem hafði með mál hans að gera, hefði sagt honum að hann væri ekki sekur um glæp, en hann væri undir þrýstingi frá yfirboðurum sínum.
Igor Koktysh gat sannað að hann var í annarri borg þegar morðið var framið og var því sýknaður og sleppt úr haldi. Hæstiréttur landsins staðfesti dóm undirréttar í febrúar 2002.
LESTU MEIRA
Ukraine must comply with Court ruling on Belarusian rock musician (News, 11 December 2009)
Ukraine must release Belarusian prisoner of conscience (News, 11 November 2009)
