Góðar fréttir: indverskur læknir látinn laus gegn tryggingu

Samviskufanginn dr. Binayak Sen, var leystur úr haldi þann 26. maí eftir að hæstiréttur landsins úrskurðaði að hann skyldi látinn laus gegn tryggingu. Hann hafði þá setið tvö ár í fangelsi.

Dr. Binayak Sen

Samviskufanginn dr. Binayak Sen, var leystur úr haldi þann 26. maí eftir að hæstiréttur landsins úrskurðaði að hann skyldi látinn laus gegn tryggingu. Hann hafði þá setið tvö ár í fangelsi.

Amnesty International fagnar úrskurðinum en telur að ákæran á hendur honum sé rakalaus og af pólitískum toga spunnin. Amnesty International hefur ítrekað hvatningu sína til indverskra stjórnvalda að láta allar ákærur á hendur dr. Sen falla niður tafarlaust.

Dr. Sen, sem var haldið í Raipur-fangelsi í Chhattisgarh-ríki, þakkaði Amnesty International og öðrum mannréttindasamtökum sem barist hafa fyrir lausn hans. Hann sagði að hann myndi áfram berjast fyrir mannréttindum í Chhattisgarh-ríki þrátt fyrir morðhótanir frá stjórnvöldum og öðrum. Dr. Binayak Sen er frumkvöðull í heilsugæslu jaðar- og frumbyggjasamfélaga í ríkinu, þar sem lögregla og vopnaðar sveitir maóista hafa átt í vopnuðum átökum seinustu sex ár.

Hann var handtekinn þann 14. maí 2007 eftir að hann heimsótti leiðtoga maóískra samtaka í fangelsi, en samtökin eru bönnuð í landinu. Fyrri heimsóknir hans í fangelsið höfðu allar fengið samþykki fangelsisyfirvalda.

Fangelsisdómurinn yfir dr. Sen er skýrt dæmi um misnotkun indverskra stjórnvalda á öryggislöggjöf til að ráðast gegn baráttufólki. Lögin bjóða upp á misnotkun vegna þess að skilgreining laganna á „ólögmætu athæfi“ eru mjög loðnar og víðtækar. Fráleitt er að telja friðsamlega mannréttindabaráttu „ólögmætt athæfi“.

Dr. Binayak Sen hafði gagnrýnt nýlega öryggislöggjöf skömmu áður en hann var handtekinn. Hann hafði einnig tilkynnt ólögmæt dráp lögreglu og Salwa Judum (vopnaðra sveita tengdum stjórnvöldum)á adivasis (frumbyggjum)

Yfirvöld hafa enn ekki rannsakað þessi dráp með fullnægjandi hætti.

Dr. Sen var hnepptur í varðhald í sjö mánuði án ákæru og haldið í einangrun í þrjár vikur. Margar ákæranna gegn honum eiga stoð í lögum sem uppfylla ekki alþjóðleg viðmið.