Shi Tao var leystur úr haldi þann 23. ágúst 2013 og er kominn aftur til síns heima í Ningxia.
Shi Tao var leystur úr haldi þann 23. ágúst 2013 og er kominn aftur til síns heima í Ningxia. Shi Tao var í haldi í átta ár og fjóra mánuði en dómur hans var styttur um 15 mánuði.
Þakkir til allra sem tóku þátt í máli Shi Tao. Við tókum upp mál hans í vefaðgerð 2006 og aftur í bréfamaraþoni árið 2007. Fjölmargir félagar okkar þrýstu á kínversk stjórnvöld að leysa hann úr haldi.
Blaðamaðurinn og ljóðskáldið Shi Tao var dæmdur árið 2004 í 10 ára fangelsi fyrir tölvupóst sem hann sendi. Í póstinum var úrdráttur af tilkynningu frá ríkinu. Tilkynningin fjallaði um takmarkanir á umfjöllun blaðamanna í tilefni þess að fimmtán ár voru liðin frá blóðbaðinu er yfirvöld réðust gegn mótmælum lýðræðishreyfingar á Torgi hins himneska friðar árið 1989.
Shi Tao sagði Amnesty International að líf hans væri að komast aftur í fyrra horf. Eins og er þarf hann að hvílast og jafna sig en hann stefnir á nám eftir að hann hefur náð sér að fullu. Hann vill vera hjá móður sinni í Ningxia. Margir af vinum hans hafa heimsótt hann eftir heimkomu hans og það hafa ekki verið settar neinar hömlur á ferðafrelsi hans.
Hann sendi þessi þakklætisorð til félaga Amnesty International:
„Ég er innilega þakklátur fyrir allan þann stuðning sem móðir mín og ég höfum fengið í gegnum árin. Stuðningur og hvatning frá öllum heimshornum hefur hjálpað móður minni og mér í gegnum erfiða og einmanalega tíma. Ég fékk í hendur öll bréfin og póstkortin frá ykkur en hef ekki lesið þau öll. Ég mun lesa hvert og eitt þeirra. Þakkir til ykkar allra.“
Nánar:
Shi Tao, kínverskur blaðamaður, var dæmdur fyrir að “uppljóstra um ríkisleyndarmál til erlendra aðila” með því að nota póstfangið sitt hjá Yahoo til að senda tölvupóst til Bandaríkjanna.
Samkvæmt dómskjölum um sönnunargögnin sem leiddu til dómsins yfir Shi Tao, var það bandaríska netfyrirtækið Yahoo sem upplýsti kínversk stjórnvöld um eiganda netfangsins.
Shi Tao var ákærður fyrir að senda tölvupóst sem hafði að geyma ágrip af tilskipun Kommúnistaflokks Kína. Í ágripinu voru blaðamenn varaðir við hugsanlegri ólgu meðan á afmæli 4. júní hreyfingarinnar stæði (í minningu atburðanna við Torg hins himneska friðar) og þeim skipað að auka ekki á þessa ólgu í skrifum sínum.
Shi Tao var fangelsaður fyrir að nýta sér tjáningarfrelsi sitt með friðsamlegum hætti, en sá réttur er bundinn í alþjóðalögum og stjórnarskrá Kína. Amnesty International álítur að Shi Tao hafi verið samviskufangi.
Fyrirtæki verða að virða mannréttindi, hvar sem þau starfa. Viðskiptasiðferði Yahoo má draga í efa vegna aðstoðar fyrirtækisins við kínversk stjórnvöld, sem leiddi til óréttmætrar fangelsunar Shi Tao. Fyrirtækið skrifaði undir „Opinbera yfirlýsingu um sjálfsögun fyrir internetiðnaðinn“, og hét þannig í raun að innleiða strangt ritskoðunar- og eftilitskerfi kínverskra stjórnvalda.
Amnesty International lét sjónarmið sín í ljós við Yahoo. Fyrirtækið svaraði þeim sjónarmiðum, þó ekki öllum.
