Góðar fréttir – mexíkóskir hermenn sóttir til saka fyrir pyndingar og kynferðislegt ofbeldi

Fjórir hermenn sem kærðir voru fyrir pyndingar og kynferðislegt ofbeldi gegn tveimur konum í Mexíkó hafa verið hnepptir í varðhald og verða dregnir fyrir dómstól.

Fjórir hermenn sem kærðir voru fyrir pyndingar og kynferðislegt ofbeldi gegn tveimur konum í Mexíkó hafa verið hnepptir í varðhald og verða dregnir fyrir dómstól.

Inés Fernández Ortega og Valentina Rosendo Cantú hafa leitað réttlætis frá árinu 2002, en þeim var báðum nauðgað það ár.

Upphaflega var réttað yfir hermönnunum fyrir herrrétti en eftir að þau réttarhöld runnu út í sandinn leituðu þær Inés og Valentina til Mannréttindadómstóls Ameríkuríkja.

Dómstóllinn felldi tvo úrskurði gegn Mexíkó í ágúst 2010 og skipaði stjórnvöldum að hefja ítarlega rannsókn og ráðast í umbætur á herréttarskipulagi í landinu.

Rúmlega þremur árum síðar hafa stjórnvöld loks brugðist við og ætla að draga hina ákærðu fyrir dómstól. Það er stór áfangi í átt að réttlæti fyrir konurnar tvær.

Bæði Inés og Valentina sýndu mikið hugrekki þegar þær kærðu ofbeldið gegn þeim. Fáar konur kæra nauðgun í Mexíkó vegna menningarlegra, efnahagslegra og félagslegra hindrana.

Bestu þakkir til ykkar allra á Íslandi sem hafið barist fyrir Inés og Valentinu í mörg ár! Mál kvennanna tveggja kom meðal annars fyrir í bréfamaraþoni Amnesty International 2011.

Amnesty International berst nú fyrir Miriam Lopez sem einnig leitar réttlætis vegna pyndinga og nauðgana sem hún varð fyrir af hálfu mexíkóskra hermanna árið 2011.