Góðar fréttir: Mongólía hættir aftökum

Amnesty International fagnar nýlegri ákvörðun ríkisstjórnar Mongólíu um að gera hlé á aftökum í landinu.

Tsakhia Elbegdorj

Amnesty International fagnar nýlegri ákvörðun ríkisstjórnar Mongólíu um að gera hlé á aftökum í landinu.

Tsakhia Elbegdorj hefur stigið stórt skref í þágu mannréttinda í Mongólíu með aftökuhléinu og mikilvægum áfanga er náð í baráttunni gegn dauðarefsingu í landinu. Amnesty International hvetur önnur ríki á svæðinu til að feta í fótspor stjórnvalda í Mongólíu

Enn eru fleiri teknir af lífi í Asíu en í öðrum heimsálfum samanlagt. Amnesty International áætlar að 1.838 einstaklingar hið minnsta hafi verið teknir af lífi í 11 ríkjum Asíu árið 2008.

Mikil leynd hvílir yfir aftökum og réttarhöldum þar sem krafist er dauðarefsingar í löndum eins og Kína, Mongólíu, Víetnam og Norður-Kóreu.

Mongólía verður nú þegar að breyta lögum er snerta dauðarefsinguna til að binda enda á þessa leynd.
Forseti Mongólíu mildaði dauðadóma yfir að minnsta kosti þremur föngum árið 2009.  Leynd hvílir yfir aftökum í landinu og engar opinberar upplýsingar eru fáanlegar um aftökur eða dauðadóma. Aðstæður fanga á dauðadeildum eru sagðar slæmar. Fjölskyldur fá ekki að vita fyrirfram um aftökur og líkum er ekki skilað til fjölskyldnanna.

Yfir tveir þriðju ríkja heimsins hafa afnumið dauðarefsinguna í lögum eða framkvæmd. Árið 2008 greiddu 106 ríki atkvæði með tillögu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um aftökuhlé um heim allan.

Amnesty International telur að dauðarefsingin sé grimmileg, ómannúðleg og vanvirðandi refsing og samtökin eru mótfallin beitingu hennar sama hverjar aðstæðurnar eru.

Dauðarefsingin er notuð í mun ríkara mæli gegn fátækum og minnihlutahópum. Engin gögn sýna fram á að hún gagnist betur við að draga úr glæpum en aðrar þungar refsingar.