Tuttugu og fjórum pólitískum föngum var nýlega sleppt í Mjanmar eftir að stjórnvöld tilkynntu að þau myndu leysa 6.313 fanga úr haldi. Einn þeirra er samviskufanginn Ma Khin Khin Leh, sem Amnesty International hefur barist fyrir frá því hún var handtekin í júlí 1999.
Ma Khin Khin Leh ásamt eiginmanni sínum, Kyaw Wunna
Tuttugu og fjórum pólitískum föngum var nýlega sleppt í Mjanmar eftir að stjórnvöld tilkynntu að þau myndu leysa 6.313 fanga úr haldi.
Einn þeirra er samviskufanginn Ma Khin Khin Leh, sem Amnesty International hefur barist fyrir frá því hún var handtekin í júlí 1999. Stjórnvöld handtóku hana af því að þau fundu ekki Kyaw Wunna, eiginmann hennar, sem tengdist baráttugöngu fyrir lýðræði sem halda átti í mánuðinum.
Meðal annarra, sem sleppt var, voru níu búddistamunkar og ein nunna. Einnig voru félagar í stjórnarandstöðuflokki Mjanmar, Lýðræðisþjóðfylkingunni, leystir úr haldi. Þeirra á meðal var þingmaðurinn dr. Zaw Myint Maung sem verið hafði í fangelsi frá 1990.
Öðrum manni, Zaw Naing Htwe, var sleppt úr haldi úr vinnubúðum. Hann var dæmdur í níu ára fangelsi í desember 2008 af því að honum barst bréf frá eldri bróður sínum, sem var einn af leiðtogum stúdentauppreisnarinnar í landinu.
Enn eru um 2.100 pólitískir fangar í Mjanmar. Heilsa margra þeirra er slæm vegna lélegs aðbúnaðar í fangelsum.
Fagna ber lausn fanganna, en stjórnvöld í Mjanmar verða nú þegar og skilyrðislaust að leysa alla samviskufanga úr haldi.
