Góðar fréttir: Samviskufangi leystur úr haldi!

Jalila Khamis Koko, súdanskur kennari og baráttumaður fyrir mannréttindum, var handtekin af öryggissveitum í  Súdan þann 15. mars 2012. Hún var leyst úr varðhaldi þann 20. janúar síðastliðinn.

 

Jalila Khamis Koko, súdanskur kennari og baráttumaður fyrir mannréttindum, var handtekin af öryggissveitum í  Súdan þann 15. mars 2012. Hún var leyst úr varðhaldi þann 20. janúar síðastliðinn.

Jalila Khamis Koko var handtekin 15. mars 2012 af öryggissveitum og haldið án ákæru í níu mánuði. Hún var formlega ákærð 13. desember fyrir fimm brot; tvö þeirra féllu undir glæpi gegn ríkinu sem bera með sér dauðarefsingu.

Eftir fjögurra vikna réttarhöld var Jalila Khamis Koko sýknuð af öllum ákærum nema þeim sem tengdust „útbreiðslu á fölskum fréttum“. Það er óljóst ákvæði í refsilögum sem er oft notað af ríkisstjórn landsins til að brjóta á bak aftur mótmæli. Hægt er að dæma fólk í sex mánaða fangelsi fyrir slíkt, en hún var leyst úr haldi þar sem hún hafði þegar verið í haldi í níu mánuði fyrir réttarhöldin.

Áður en hún var handtekin vann Jalila Khamis Koko við mannúðarstörf í sjálfboðavinnu fyrir fólk sem hafði flúið heimili sín í Suður-Kordofan. Í júní 2011 birtist hún í myndbandi á YouTube þar sem hún fordæmdi aðbúnað á átákasvæðum í Suður-Kordofan og kallaði eftir vopnahléi.

Jalila Khamis Koko er meðlimur í stjórnarandstöðuflokknum Frelsishreyfingu súdanska fólksins – í norðri (Sudan People´s Liberation Movement – North, SPLM-N), sem var bannaður af ríkisstjórn Súdans í september 2011. Hún er er Núbi frá Suður-Kordofan.

Varðhald Jalilu Khamis Koko virðist fylgja svipuðu mynstri og meðferð stjórnvalda á menntafólki  og fólki af núbískum uppruna.

Bestu þakkir til allra sem tóku þátt!