Amnesty International fagnar þeim fréttum að hópi víetnamskra samviskufanga mun bráðlega verða sleppt úr haldi. Meðal þeirra sem fá frelsi eru dr. Nguyen Dan Que, Nguyen Dinh Huy, Thich Thien Minh og kaþólski presturinn faðir Thadeus Nguyen Van Ly.
Amnesty International fagnar þeim fréttum að hópi víetnamskra samviskufanga mun bráðlega verða sleppt úr haldi. Meðal þeirra sem fá frelsi eru dr. Nguyen Dan Que, Nguyen Dinh Huy, Thich Thien Minh og kaþólski presturinn faðir Thadeus Nguyen Van Ly. Fjórmenningarnir, sem setið hafa inni í samtals 88 ár, eða frá seinni hluta áttunda áratugarins, fá nú almenna sakaruppgjöf ásamt 8000 föngum, í tilefni Tet, byrjunar nýs tunglárs.
Amnesty International hefur barist fyrir frelsun þessara samviskufanga um áraraðir og er það að hluta til þeim þúsundum sjálfboðaliða Amnesty International um allan heim að þakka, að þeim skuli nú vera sleppt. Allt frá Tælandi til Portúgal hafa meðlimir haldið vökur og skrifað til víetnamskra yfirvalda og sinna eigin ríkisstjórna til að tryggja að þessir fangar féllu ekki í gleymsku.
Dr. Nguyen Dan Que, 62. ára
Dr. Que, sem er virtur læknir og baráttumaður fyrir mannréttindum hefur á síðustu 27 árum dvalið 20 ár bak við lás og slá, fyrir að gagnrýna framferði ríkisstjórnar sinnar í mannréttindamálum. Hann var síðast handtekinn í mars 2003 eftir að hafa lagt fram alþjóðlega yfirlýsingu þess efnis að ekkert upplýsingafrelsi væri í Víetnam. Dr. Que var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi eftir ósanngjörn réttarhöld þann 29. júlí 2004.
Þrátt fyrir að hafa dvalið um áraraðir í fangelsi, hefur Dr. Que haldið ótrauður áfram að vera málsvari mannréttinda, og á stuttu tímabili 1990 þegar hann var frjáls gerðist hann félagi í Amnesty International. Dr. Que hefur þjáðst af heilsubresti í þau ár sem hann hefur dvalið í fangelsi.
Hlustið á viðtal við lækninn Nguyen Dan Que (Notar Real Player)
Dr. Nguyen Dinh Huy, 73. ára
Nguyen Dinh Huy, fyrrum prófessor í ensku og sagnfræði, var stofnandi samtakanna Hreyfingarinnar til að sameina fólkið og byggja upp lýðræði (Movement to Unite the People and Build Democracy). Hann var handtekinn í nóvember 1993 ásamt ellefu öðrum félögum samtakanna fyrir að skipuleggja ráðstefnu um lýðræði og mannréttindamál sem fram átti að fara í Ho Chi Minh borg. Hann var dæmdur í 15 ára fangelsi samkvæmt lögum um þjóðaröryggi. Þar áður hafði hann dvalið 17 ár í fangelsi vegna “endurmenntunar” án dóms eða réttarhalda. Heilsa hans hefur verið slæm um áraraðir.
Búddamunkurinn Thich Thien Minh, einnig þekktur sem
Huynh Van Ba, 51. árs
Thich Thien Minh, meðlimur í Einingarkirkju búddista í Víetnam (Unified Buddhist Church of Viet Nam) sem nýtur ekki samþykkis yfirvalda, var handtekinn og varpað í fangelsi árið 1979 eftir mótmæli vegna yfirtöku stjórnvalda á pagóðu (trúarhofi búddista) þar sem hann bjó. Pagóðan var síðan jöfnuð við jörðu. Hann var ákærður fyrir að “reyna að steypa ríkistjórninni af stóli” og dæmdur í lífstíðar fangelsi. Fréttir herma að árið 1986 hafi hann fengið annan lífstíðardóm fyrir meinta flóttatilraun. Bæði réttarhöldin fóru fram í kyrrþey, og án þess að hann nyti verjanda.
Hann hefur mátt þola langvarandi einangrunarvist, og var hlekkjaður bæði á fótum og höndum í samfellt þrjú ár, en á þeim tíma þurfti hann aðstoð samfanga sinna til að næra sig og ganga örna sinna.
Kaþólski presturinn faðir Thadeus Nguyen Van Ly, 58. ára
Kaþólski presturinn faðir Ly var handtekinn í maí 2004 og dæmdur í 15 ára fangelsi auk fimm ára á reynslulausn, samkvæmt lögum um þjóðaröryggi. Faðir Nguyen Van Ly hefur þrálátlega og berorðað gagnrýnt stefnu stjórnvalda í trúmálum og mannréttindamálum, einkum eignaupptöku á landareignum kirkjunnar síðan 1975.
Hann dvaldi um árabil í varðhaldi án réttarhalda á síðari hluta áttunda áratugarins, og var síðan dæmdur í 10 ára fangelsi vegna friðsamlegrar tjáningar skoðana sinna árið 1983. Í bæði skiptin útnefndi Amnesty International faðir Ly samviskufanga.
