Götukynningar Amnesty International

Götukynnar Íslandsdeildar Amnesty International hafa nú hafið störf til að kynna starf samtakanna og bjóða áhugasömum vegfarendum að gerast Vonarljós. Vonarljós eru mánaðarlegir styrktaraðilar samtakanna og tákn um von fyrir þolendur mannréttindabrota. Kjarni starfs Amnesty International felst í að berjast gegn mannréttindabrotum um heim allan. 

Allt starf Íslandsdeildarinnar byggist á frjálsum framlögum einstaklinga. Það gerir okkur kleift að vera óháð pólitískum, trúarlegum og efnahagslegum hagsmunum sem er mikilvægt til að geta gætt hlutleysi í gagnrýni á stjórnvöld og stórfyrirtæki hvar sem er í heiminum. Hvert framlag skiptir því gríðarmiklu máli.  

Götustarf Íslandsdeildarinnar hefur verið grundvöllurinn að því að efla starf deildarinnar í gegnum árin. Götukynnar okkar verða staðsettir á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Má þar nefna við verslanir, í verslunarmiðstöðvum, í miðbænum og við sundlaugar. Þeir verða vel merktir Amnesty International og uppfullir af fróðleik um starfið okkar. Við vonum svo sannarlega að fólk taki vel á móti þeim.  

Vakni einhverjar spurningar vegna götustarfsins þá má endilega hafa samband við okkur á netfangið: amnesty@amnesty.is 

Á myndinni sjást götukynnar okkar: Ástrós, Telma og Jörundur.