Það að grísk yfirvöld hafi brugðist þeirri skyldu sinni að rannsaka dauða 11 Afgana sem drukknuðu úti á sjó sýnir skeytingarleysi yfirvalda um að framfylgja réttlæti fyrir fórnarlömb og fjölskyldur þeirra og er dæmi um harðlínustefnu í málefnum hælisleitenda og farandfólks, sagði Amnesty International í tilefni þess að ár sé liðið frá harmleiknum í Farmakonisi.
Það að grísk yfirvöld hafi brugðist þeirri skyldu sinni að rannsaka dauða 11 Afgana sem drukknuðu úti á sjó sýnir skeytingarleysi yfirvalda um að framfylgja réttlæti fyrir fórnarlömb og fjölskyldur þeirra og er dæmi um harðlínustefnu í málefnum hælisleitenda og farandfólks, sagði Amnesty International í tilefni þess að ár sé liðið frá harmleiknum í Farmakonisi.
Þann 20. janúar 2014 létust 11 Afganir, þar af 8 börn, þegar fiskibátur þeirra sökk nálægt grísku eyjunni Farmakonisi. Þau sem komust lífs af hafa sagt að þau hafi verið dregin af miklum hraða til baka í áttina að Tyrklandi. Yfirvöld hafa fellt niður rannsókn á harmleiknum. Síðan þá hafa rúmlega 100 flóttamenn og farandsfólk látið lífið við að fara yfir Eyjahafið.
„Það er svívirða að grísk yfirvöld hafi brugðist því að rannsaka þennan harmleik með fullnægjandi hætti í ljósi vitnisburða þeirra sem komust lífs af og ósamræmis í gögnum sem strandgæslan lagði fram. Varnarlaust fólk, sem neyddist til að flýja heimaland sitt, er skilið eftir til að syrgja ástvini sína með litla von um réttlæti eða skaðabætur“, sagði John Dalhuisen, framkvæmdastjóri Evrópu- og Mið-Asíudeildar Amnesty International.
Sabur Azizi, Afgani sem komst lífs af en missti eiginkonu sína og 10 ára son sinn í atburðinum, skýrði frá: „Einhver sýndi þeim barnið og kallaði eftir hjálp en strandgæslan bölvaði okkur í stað þess að hjálpa okkur…Þegar strandgæslan skar á reipið og reyndi að fara í burtu þá byrjuðum við að sökkva.“
Hann og annar maður, sem missti konu sína og fjögur börn, voru á meðal 16 hælisleitenda sem náðu að komast í bát strandgæslunnar eftir að bát þeirra hvolfdi. Þeir sögðu Amnesty International að þeir hefðu verið barðir og byssu beint að þeim. Þeir sögðu einnig að skipstjórinn hefði hótað þeim að „hann myndi valda þeim enn meiri vandræðum ef þeir voguðu sér að tilkynna hvað hefði gerst um nóttina.“
Í ágúst felldu yfirvöld niður rannsóknina á harmleiknum og skýrðu frá því að vitnisburður þeirra sem komust lífs af hafi ekki verið á rökum reistur. Fjögur frjáls félagasamtök, þar á meðal Gríska flóttamannaráðið og Samtök lögfræðinga fyrir réttindum flóttamanna og farandfólks, hafa haldið því fram að rannsókn saksóknara hafi eingöngu byggst á vitnisburði strandgæslunnar og yfirmanna hennar og hafi ekki tekið önnur mikilvæg sönnunargögn til athugunar, þar með talið misræmi í gögnum frá strandgæslunni.
Lögð voru fram sönnunargögn frá sérfræðingi um að bátnum hefði hvolft vegna þess að hann hafi ekki verið dreginn á viðeigandi hátt, meðal annars hafi togreipið verið of stutt.
Eftirlifendur eru nú að undirbúa kvörtun gegn grískum yfirvöldum til Mannréttindadómstóls Evrópu með tilvísun í brot gegn réttinum til lífs (2. grein í mannréttindasáttmála Evrópu), frelsi frá pyndingum (3. grein í mannréttindasáttmála Evrópu) og réttinum til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns (13. grein í mannréttindasáttmála Evrópu).
Amnesty International hefur ítrekað vakið athygli á alvarlegum mannréttindabrotum gegn farandfólki og hælisleitendum við landamæri Grikklands og Tyrklands og hefur kallað eftir því að grísk yfirvöld hætti að flæma farandfólk og hælisleitendur til baka til Tyrklands.
Að flæma hælisleitendur til baka er ekki aðeins brot á mannréttindaskyldum Grikklands heldur stefna þau lífum í hættu. Amnesty International telur að það samræmist ekki lögum Evrópusambandsins og kallar á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að hefja málsmeðferð vegna brota Grikklands.
Það er sérstaklega mikilvægt þar sem auknar öryggisráðstafanir í Grikklandi á Evros svæðinu, sem er við landamæri Tyrklands, þar sem meðal annars er 10,5 metra há girðing, hafa leitt til þess að æ fleiri hælisleitendur og farandfólk fara hættulega sjóleið á litlum og ofsetnum bátum yfir til grísku eyjanna.
„Skortur á fullnægjandi rannsókn á atburðinum við Farmakonisi er lítilsvirðing við hörmulegu mannfalli. Það, ásamt ákvörðun stjórnvalda um að loka landamærum sínum, er merki um alvarlegar horfur fyrir flóttamenn og farandfólk sem haldi áfram að deyja að óþörfu í Eyjahafi“, sagði John Dalhuisen.
„Fórnarlömbin og fjölskyldur þeirra eiga rétt á skaðabótum, ásamt aðgangi að sannleikanum og réttlæti.“
