Gvantanamó: Örvænting fanga í hungurverkfalli!

Yfir 80 fangar í fangabúðum Bandaríkjastjórnar í Gvantanamó á Kúbu eru í hungurverkfalli og fjöldinn eykst stöðugt.

Yfir 80 fangar í fangabúðum Bandaríkjastjórnar í Gvantanamó á Kúbu eru í hungurverkfalli og fjöldinn eykst stöðugt. Amnesty International krefst þess að fangarnir verði ekki látnir sæta illri og niðurlægjandi meðferð og að allir fangar í búðunum fái réttlát réttarhöld eða sé sleppt að öðrum kosti.

Hungurverkfallið kom í kjölfar þess sem fangarnir kalla niðurlægjandi meðferð fangelsisyfirvalda og aukins vonleysis eftir svik núverandi Bandaríkjaforseta, sem áður lofaði að loka fangabúðunum í Gvantanamó og tryggja réttlæti fyrir fangana þar.

Þann 10. apríl 2013 hófu 43 af 166 föngum hungurverkfall samkvæmt upplýsingum frá bandaríska hernum, en lögfræðingar sumra fangana fullyrða að talan sé mun hærri.

Fleiri lögfræðingar hafa skrifað til stjórnvalda og varað við því að heilsa umbjóðenda þeirra sé í mikilli hættu.

Leit í klefum

Hungurverkföllin hófust eftir ítrekaða leit í fangaklefum í febrúar, sem fangarnir töldu framkvæmdar markvisst til að niðurlægja þá, meðal annars með vanvirðandi meðhöndlun á Kóraninum. Bandarísk yfirvöld neita þessu.

Vonleysi

Lögfræðingar fanganna í Gvantanamó eru ekki í neinum vafa um að hungurverkföllin stafi einnig af auknu vonleysi fanganna um að fá nokkurn tíma úrlausn sinna mála. Margir þeirra hafa nú þegar verið í haldi í Gvantanamó í yfir tíu ár og æ fleiri telja nú að bandarísk stjórnvöld muni aldrei sleppa þeim úr haldi.

Svikin loforð Obama

Vonleysi fanganna hefur einnig magnast vegna kosningasvika Obama Bandaríkjaforseta, en hann lofaði í aðdraganda þess að hann var upphaflega kjörinn forseti, að fangabúðunum í Gvantanamó yrði lokað innan árs. Sífellt meiri andstaða virðist vera á Bandaríkjaþingi við að láta fangana í Gvantanamó fá réttlát réttarhöld eða sleppa þeim 80 föngum, hið minnsta, sem þegar hefur verið úrskurðað að sleppa skuli úr haldi.

Amnesty International krefst þess að:

fangarnir í hungurverkfalli njóti læknisaðstoðar óháðra lækna og að lögfræðingar þeirra fái upplýsingar um heilsu fanganna.

bandarísk stjórnvöld ítreki loforð sín um að leysa þá óvissu sem ríkir um aðstæður og örlög fanganna í Gvantanamó og láti rétta yfir þeim fyrir borgaralegum dómstól eða sleppi þeim að öðrum kosti.