Hæstiréttur Kambódíu leysir úr haldi blóraböggla vegna morðs á verkalýðsleiðtoga

Tveir menn sem voru ranglega sakfelldir í Kambódíu fyrir morðið á verkalýðsleiðtoganum Chea Vichea hafa verið leystir úr haldi gegn lausnargjaldi eftir nærri fimm ár í fangelsi.

Lögregla sýnir Sok Sam Oeun (til vinstri) and Born Samnang (til hægri) eftir handtöku þeirra

Tveir menn sem voru ranglega sakfelldir í Kambódíu fyrir morðið á verkalýðsleiðtoganum Chea Vichea hafa verið leystir úr haldi gegn lausnargjaldi eftir nærri fimm ár í fangelsi. Réttarhöldum yfir þeim var mjög ábótavant, en hæstiréttur landsins tók loks mál þeirra fyrir þann 31. desember 2008.

Samkvæmt fregnum vísaði forseti hæstaréttar málinu frá og skipaði áfrýjunarréttinum að efna til nýrra réttarhalda.

Amnesty International telur ákvörðun hæstaréttar mikilvægt skref í réttlætisátt. Nú er áríðandi að áfrýjunarrétturinn hefji þegar í stað óháða og skilvirka rannsókn svo að hinir raunverulegu morðingjar finnist og verði dregnir til ábyrgðar.

Born Samnang og Sok Sam Oeun voru handteknir grunaðir um morð skömmu eftir að Chea Vichea var skotinn til bana við sölubás í miðbæ Phnom Penh þann 22. janúar 2004

Báðir mennirnir voru dæmdir í 20 ára fangelsi þrátt fyrir að hafa fjarvistarsannanir á þeim tíma sem Chea Vichea var myrtur. Margvísleg mannréttindabrot voru framin á mönnunum í varðhaldi og við réttarhöldin yfir þeim. Þeir máttu meðal annars þola pyndingar og illa meðferð.

Rannsókn lögreglu var ekki ítarleg og óvilhöll og við réttarhöldin var stuðst við staðlaus og ótæk sönnunargögn.

Áfrýjunarrétturinn staðfesti dóminn yfir mönnunum þann 6. apríl 2007, þrátt fyrir að saksóknarinn hafi viðurkennt að ekki væru nægileg sönnunargögn fyrir hendi.

Amnesty International hefur lengi haldið því fram að hinir raunverulegu morðingjar gangi enn lausir. Frjálsa verkalýðsfélagið, sem Chea Vichea var í forsvari fyrir, hefur einnig ítrekað farið fram á að Born Samnang og Sok Sam Oeun verði leystir úr haldi.
Miklu skiptir að fram fari rannsókn á handtöku Born Samnang og Sok Sam og réttarhöldunum yfir þeim, þar á meðal ásökunum um pyndingar lögreglu, hótanir í garð vitna og afskipti lögreglu af réttarhöldunum sjálfum.