Diego Charles og Antoinette Duclare voru myrt fyrir framan heimili Diego þann 30. júní síðastliðinn í höfuðborg Haíti, Port-au-Prince. Daginn eftir hófu vopnaðir einstaklingar skothríð fyrir utan heimili þeirra í þeim tilgangi að ógna fjölskyldum þeirra og mögulegum vitnum.
Diego Charles var blaðamaður og stofnaði tímaritið Larepiblik Magazine með Antoinette Duclare, aðgerðasinna og ötulum gagnrýnanda ríkisstjórnarinnar. Antoinette talaði gegn spillingu og mannréttindabrotum. Hún vakti meðal annars athygli á fjármálamisferli í tengslum við fjármagn sem var eyrnamerkt þróunarverkefnum.
Hún var skotin sjö sinnum. Diego Charles var skotinn tvisvar.
Ein af síðustu greinum sem Diego skrifaði fjallaði um morðið á Monferrier Dorval, forseta lögmannasamtaka í Port-au-Prince árið 2020. Í greininni kom fram að yfirvöld sýna enn engan áhuga á að rannsaka málið.
Þau höfðu bæði fengið hótanir mánuðina fyrir morðin.
SMS-félagar krefjast þess að stjórnvöld setji af stað óháða rannsókn strax og dragi gerendur til ábyrgðar.
