Mihail Stoyanov, 25 ára gamall læknanemi, fór af heimili sínu í Sofiu, höfuðborg Búlgaríu, þann 30. september 2008. Hann kom aldrei aftur heim.
©AI. Minningarspjald vegna Mihail Stoyanov í Borisova-garði í Sofiu.
Mihail Stoyanov, 25 ára gamall læknanemi, fór af heimili sínu í Sofiu, höfuðborg Búlgaríu, þann 30. september 2008. Hann kom aldrei aftur heim. Móðir hans, Hristina Stoyanova, fór úr borginni stuttu síðar, en þegar hún kom heim aftur, fimm dögum síðar, hóf hún leit að honum.
Hún fór á spítala í borginni. Mihail var ekki þar. Næsta dag fóru hún og bróðir Mihail á lögreglustöð. Þar voru þau yfirheyrð hvort í sínu lagi og spurð: „Hverjir voru vinir Mihail?“, „Notaði hann fíkniefni?“ og spurt ítarlega um æsku hans. Einnig gerði lögregla húsleit á heimili fjölskyldunnar til að athuga hvort þar fyndust fíkniefni.
Taktu þátt og þrýstu á saksóknara í Búlgaríu: http://www.netakall.is/adgerdir/hatursglaepir-i-bulgariu/
Síðar játaði lögreglan að lík Mihail Stoyanov hefði fundist í Borisova-garði, stærsta almenningsgarði í Sofiu. Móðir hans las síðar í krufningarskýrslu um áverkana á líki hans:
„Allur líkaminn… marinn, bólgur á höfði… vangi hans marinn og blár,“ sagði hún Amnesty International í mars 2012. „Hér tröðkuðu þeir á brjóstkassa hans. Fótleggir hans, allt var marið og blátt, allur líkami hans. Þannig fannst hann. Hann dó – skýrslan segir að þrengt hafi verið að öndunarveginum og það eru áverkar… hér, á hálsinum. Þeir brutu… barkann á honum.“
Tveir ungir menn voru handteknir, grunaðir um morðið, árið 2010. Samkvæmt frásögnum fjölmiðla og móður Mihails sögðu vitni, sem tilheyrðu sama hópi ungmenna og að sögn horfðu á og fögnuðu þegar árásin á Mihail var gerð, að hópurinn væri að „hreinsa samkynhneigða úr garðinum“. Hristina Stoyanova las þetta í rannsóknarskýrslum lögreglu, sem hún og lögfræðingur hennar höfðu aðgang að.
Mennirnir tveir, sem grunaðir voru um morðið, voru handteknir og hnepptir í stofufangelsi í tvö ár. Saksóknari lagði ekki fram kæru og þeim var sleppt í apríl 2012. Málinu er ekki lokið og lögfræðingur Hristinu Stoyanovu sagði Amnesty International að hann gæti ekki skýrt tafirnar sem hafa orðið á málinu.
Nánar um hatursglæpi gegn hinsegin fólki í Búlgaríu
Amnesty International hvetur búlgörsk stjórnvöld til að endurskoða löggjöf og venjur í landinu varðandi rannsóknir og málarekstur er snerta hatursglæpi gegn hinsegin fólki (lesbíum, hommum, tvíkynhneigðum og transgender-fólki). Í skýrslu Amnesty International: Changing laws, Changing minds: Challenging homophobic and transphobic hate crimes in Bulgaria er greint frá því hvernig lögregla og saksóknarar í landinu vanrækja að rannsaka og ákæra vegna hatursglæpa gegn hinsegin fólki í landinu.
Tugir hinsegin fólks hefur verið lamið, því nauðgað, eða myrt vegna ætlaðrar eða raunverulegrar kynhneigðar eða kynvitundar þeirra. Búlgörsk yfirvöld vanrækja ekki bara að afhjúpa hatrið gegn hinsegin fólki sem er ástæða glæpanna heldur einnig að rannsaka og sækja til saka þá sem bera ábyrgð á hatursglæpunum.
Löggjöf í Búlgaríu gegn hatursglæpum tekur ekki á ofbeldi á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar og stjórnvöld reyna því sjaldan að komast að ástæðum slíkra glæpa.
Fimm þátttakendur í Gleðigöngu í Sofiu árið 2011 voru lamdir og þeim hrint til jarðar, en lögreglan spurði þátttakendurna fyrst hvort þeir hefðu egnt árásarmennina til atlögu. Nú, ári síðar, hefur lögreglan enn ekki haft hendur í hári árásarmannanna og hefur lýst því yfir að rannsóknin á málinu sé ekki forgangsmál.
Transgender einstaklingar sæta enn meiri mismunun og sæta oftar árásum en hommar, lesbíur og tvíkynhneigðir. í sumum tilvikum hefur lögregla neitað að rannsaka árásir gegn transgender fólki. Viðhorf í samfélaginu gera þeim erfitt fyrir að finna vinnu.
Miklu skiptir að ráðast gegn fordómum gegn hinsegin fólki í samfélaginu. Áríðandi er að löggjöf gegn hatursglæpum verði breytt þannig að árásir gegn hinsegin fólki verði einnig skilgreindar sem hatursglæpir.
Búlgörsk stjórnvöld hafa náð nokkrum árangri í viðeitni sinni til að jafna stöðu hinsegin fólks en gera þarf meira. Hristina Stoyanova, móðir Mihail Stoyanov, sem myrtur var vegna kynhneigðar sinnar, segir: „Það sem þarf að gera er að kenna börnum í skólum um mismun og að það sé í lagi að fólk sé mismunandi – að það skiptir ekki máli hvort einstaklingur er samkynhneigður eða ekki.“
