Heimildarmyndin Soviet Barbara og umræður í Bíó Paradís

Íslandsdeild Amnesty International heldur sérstaka sýningu á verðlaunaheimildarmyndinni Soviet Barbara í tilefni af herferð Amnesty International gegn rússneskum ritskoðunarlögum um hernað.  

Sýningin fer fram í Bíó Paradís föstudaginn 3. maí kl. 19:00. Aðgangur er ókeypis. Öll Velkomin.

Ragnar Kjartansson og Masha Alyokhina úr Pussy Riot ávarpa gesti fyrir sýninguna og að henni lokinni ræða Gaukur Úlfarsson, leikstjóri myndarinnar, Guðni Tómasson, framleiðandi myndarinnar og Diana Burkot úr Pussy Riot við áhorfendur og svara spurningum.

Tjáningarfrelsið horfið

Diana Burkot úr fjöllistahópnum Pussy Riot segir miklar breytingar hafa átt sér stað í Rússlandi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu, þar á meðal ný ritskoðunarlög og kúgunartilburðir. 

„Það er ekkert tjáningarfrelsi til staðar lengur í almannarými og jafnvel ekki í samtölum við vini og samstarfsfólk rétt eins og var á tímum Sovétríkjanna. Einnig er ekkert tjáningarfrelsi á samfélagsmiðlum.

Diana Burkot úr Pussy Riot

Um langa hríð hefur verið lítið svigrúm fyrir frið­samleg mótmæli og tján­ing­ar­frelsi í Rússlandi en í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu hefur það í raun horfið með öllu. Viku eftir innrásina í Úkraínu, í febrúar 2022, innleiddu rúss­nesk stjórn­völd ritskoð­un­arlög í þeim tilgangi að gera mótmæli gegn innrás­inni refsi­verð. Nú, tveimur árum síðar, afplánar fjöldi fólks áralanga fang­els­is­dóma fyrir frið­sam­legt andóf gegn stríðinu. 

Einstaklingur getur farið í fangelsi í allt að átta ár ef hann/hún/hán kallar stríð stríð en samkvæmt Kreml er þetta sérstök hernaðaraðgerð. Fólk getur átt á hættu að vera sótt til saka fyrir að tjá sig á samfélagsmiðlum og jafnvel fyrir að líka við færslur á samfélagsmiðlum. Nú þegar er mikið um slík mál. Instagram og Facebook eru skilgreind sem öfgafyrirtæki, femínismi og hinsegin hópar sem öfgahreyfingar, óháðir fjölmiðlar eru ekki lengur til.“ 

Diana Burkot úr Pussy Riot

Heimildamyndin

Árið 1992, viku eftir fall Sovétríkjanna, varð sápuóperan Santa Barbara eins konar gluggi rússneskra sjónvarpsáhorfenda inn í vestræna lifnaðarhætti og naut gríðarlegra vinsælda. Þrjátíu árum síðar færir íslenskur myndlistarmaður, Ragnar Kjartansson, Rússum þættina á ný. 

Horfðu á stiklu úr heimildamyndinni Soviet Barbara

Soviet Barbara

Herferð

Íslands­deild Amnesty Internati­onal tekur nú þátt í alþjóð­legri herferð samtak­anna til að vekja athygli á umræddum ritskoð­un­ar­lögum og þeim mann­rétt­inda­brotum sem af þeim hlýst í Rússlandi. 

Við hvetjum alla til að taka þátt í herferð­inni og skrifa undir ákall um að afnema ritskoð­un­ar­lögin í Rússlandi og frelsa fólk sem er í haldi á grund­velli þeirra. Minnum þannig vald­hafa í Rússlandi á að ekki megi skerða tján­ing­ar­frelsið og réttinn til frið­sam­legra funda­halda.