Heimsókn páfans til Kamerún vekur spurningar um mannréttindi homma og lesbía

Benedikt XVI er nú staddur í Afríku í sinni fyrstu heimsókn þangað. Meðal annars heimsækir hann Kamerún, þar sem kynlíf samkynhneigðra er refsivert athæfi.

Benedikt XVI er nú staddur í Afríku í sinni fyrstu heimsókn þangað. Meðal annars heimsækir hann Kamerún, þar sem kynlíf samkynhneigðra er refsivert athæfi.

Amnesty International hefur beðið Benedikt páfa að hvetja stjórnvöld í Kamerún til að binda enda á mismunun í landinu á grundvelli kynhneigðar.

Háttsettur leiðtogi rómversk-kaþólsku kirkjunnar í Kamerún fordæmdi samkynhneigð í desember 2005, að því er fjölmiðlar í landinu greindu frá á þeim tíma. Margt samkynhneigt fólk hefur sætt ofsóknum í landinu.

Fulltrúar Páfagarðs sögðu á fundi á allsherjarþingi SÞ í desember 2008 að þeir styddu að „forðast ætti allt sem bæri vott um óréttláta mismunun gagnvart samkynhneigðu fólki“ og hvöttu ríki til að hætta að refsa samkynhneigðum fyrir kynhneigð sína.

Páfinn getur notað þetta mikilvæga tækifæri og ítrekað að Páfagarður fordæmi allar árásir eða ofsóknir gegn fólki á grundvelli kynhneigðar þeirra og hvatt stjórnvöld í Kamerún til að fella úr gildi lög sem gera samkynhneigð refsiverða. 

Amnesty International hefur upplýsingar um tugi ungra manna og kvenna sem hafa sætt varðhaldi undanfarin ár, og jafnvel fangelsi og sektum fyrir samkynhneigð sína.

 

Mál tveggja manna, sem lögreglan handtók í Yaoundé, er dæmigert. Þeir voru handteknir fyrir að stunda kynlíf saman. Meðan þeir voru í varðhaldi máttu þeir þola endaþarmsskoðun í viðleitni yfirvalda til að staðfesta að þeir hefðu stundað kynlíf.

Mennirnir voru leiddir fyrir rétt þann 23. nóvember 2007 og lýstu yfir sakleysi sínu. Dómstóllinn úrskurðaði að þeir hefðu gerst sekir um kynlíf saman og skyldu sæta fangelsi í sex mánuði og greiða 25.000 kamerúnska franka í sekt (um 5.000 ískr). Dómurinn féll þann 13. mars 2008. Þeim var sleppt úr fangelsi skömmu síðar af því að þeir höfðu þegar setið meira en sex mánuði í varðhaldi.

Tólf ungar konur voru reknar úr háskóla í Douala í mars 2006 fyrir samkynhneigð. Amnesty International og önnur mannréttindasamtök hafa ítrekað hvatt stjórnvöld í Kamerún, trúfélög og fjölmiðla í landinu til að virða og vernda mannréttindi allra í Kamerún, án tillits til kynhneigðar þeirra.

 

Tugir borgara í Kamerún hafa verið hnepptir í varðhald fyrir það eitt að stunda kynlíf með fólki af sama kyni. Slíkt er algerlega óásættanlegt. Amnesty International vonar að páfinn segi slíkt hið sama við stjórnvöld, kirkjuyfirvöld og almenning í landinu meðan á heimsókn hans stendur.

 

Lestu meira

Cameroon: A catalogue of human rights abuses (Press release, 29 January 2009)
Dissent violently repressed in Cameroon (Report, 29 January 2009)