Staða frjálsra fjölmiðla í Rússlandi veldur víða áhyggjum en hagsmunaaðilar tengdir ríki og valdablokkum í landinu hafa tangarhald á fjölmiðlum.
Staða frjálsra fjölmiðla í Rússlandi veldur víða áhyggjum en hagsmunaaðilar tengdir ríki og valdablokkum í landinu hafa tangarhald á fjölmiðlum.
Grígorí Paskó vinnur oftast einn án verndar gegn stöðugum hótunum. Með því að skrifa um ástand mannréttinda og umhverfismála í Rússlandi í dag tekur hann mikla áhættu. Hann hefur starfað sem blaðamaður undanfarin tuttugu og fimm ár og upplifað miklar breytingar í kjölfar Perestrojku Gorbatsjovs og falls Sovétríkjanna, þíðu og aukið frelsi fjölmiðla og síðan aftur hertar reglur í ríki Pútíns.
Paskó fæddist í Úkraínu árið 1962 og stundaði nám í blaðamennsku við herflotaháskólann í Lvov. Hann flutti til Vladivostok og skrifaði fyrir flotablaðið Vojeva Vachta (Varðturninn). Í október 1997 var hann handtekinn við heimkomu frá Japan og sakaður um njósnir. Sannleikurinn var sá að Paskó hafði kvikmyndað starfsmenn rússneska flotans varpa kjarnorkuúrgangi í hafið þrátt fyrir alþjóðlegt bann við því. Í kjölfarið var honum varpað í fangelsi en sleppt árið 2003 en þó aðeins skilorðsbundið. Hann var sviptur gráðum sínum hjá flotanum og margar lygar birtar um hann sem „svikara og njósnara“ í opinberum fjölmiðlum. Nú berst hann fyrir máli sínu hjá mannréttindadómstólnum í Strassbourg.
Grígorí Paskó hefur m.a. fengið mannréttindaverðlaun Human Rights Watch árið 2002 og í september 2007 hlaut hann þýsk friðarverðlaun sem kennd eru við rithöfundinn Erich Maria Remarque. Í yfirlýsingu dómnefndar sagði að Paskó hlyti verðlaunin fyrir bók sína Rauða svæðið og vegna þess að hann væri „virkur baráttumaður frelsis og mannréttinda“.
Bókin Rauða svæðið fjallar um dvöl Paskós í fangelsi og vinnubúðum norðvestur af Vladivostok. Hún byggir að stórum hluta á dagbók sem hann skrifaði með örsmárri skrift á ýmsa miða. Sagan minnir um margt á bók Solzhenitsín, Dagur í lífi ÍvansDenisovitsj. Paskó segir frá ómanneskjulegum aðstæðum og yfirvöldum. Hvernig 35 menn skiptust á að sofa í hörðum rúmum í þröngum klefa þar sem lífið var háð geði yfirmanna og varða. Paskó veiktist og skilaboðin frá lögfræðingum, þegar þeir loks fengu að koma til hans, voru ekki uppörvandi. Hann skrifar um angist, von og algera örvæntingu á mjög ljóðrænan og sterkan hátt. Lýsingar hans á lofti eða fremur skorti á því í yfirfullum fangaklefum eru oft yfirþyrmandi og ekki auðveldar aflestrar. Aftur á móti er einlægni höfundar og hugleiðingar um lífið og manneskjurnar fullar lífi og kímnigáfu. Léttur og lifandi stíll Paskós er eflaust ein af ástæðum þess að bókin hefur hlotið góðar viðtökur í Þýskalandi. Nú er verið að þýða bókina á ensku og fyrirhugaðar útgáfur á fleiri tungumálum. Hann skrifaði einnig aðra bók um lífið í fangelsi sem heitir Hunangskakan. Bæði verkin voru prentuð í einni bók á rússnesku fyrir tveimur árum. En flutningabíllinn sem ók öllu upplaginu úr prentsmiðjunni „hvarf“ ofan í stórfljót á leiðinni til Moskvu. Þannig misstu lesendur í Rússlandi af því að fá að lesa sögur Paskós úr fangelsi Rússlands í dag. Áhrifaríkar frásagnir sem gætu allt eins verið frá tímum Dostojevskís eða úr Gúlagi Stalíns.
Í Stokkhólmi talaði Paskó meðal annars á fundi á vegum Amnesty International um líf hundraða þúsunda fanga í Rússlandi í dag og „steinaldarstig“ reglnanna sem þar gilda. „Fangar mega til dæmis aðeins hringja heim fjórum sinnum á ári,“ sagði hann.
Við setjumst niður saman eftir kvöldfundinn hjá Amnesty og ég get ekki stillt mig um að kvarta yfir einum fundargesta: Rússneskumælandi konu sem stöðugt spurði Paskó frekjulega eins og hann væri í yfirheyrslu. Paskó lítur á mig öruggur og segir:
„Þessi kona var frá leyniþjónustunni, FSB.“
Ertu viss?
„Já,“ segir hann án þess að brosa: „Þegar ég er í útlöndum að tala, til dæmis í Bandaríkjunum, þá skoða ég hópinn og get alltaf séð strax hverjir eru frá sendiráði Rússlands eða FSB.“
Ertu ekki hræddur við að halda áfram að skrifa?
„Ég skrifa um staðreyndir. Fyrir mig er bara til eitt yfirvald og það er sannleikurinn. Ég er ekki meðlimur í neinum stjórnmálaflokki eða nokkrum samtökum. Það sem ég geri og hef verið að gera þessi tuttugu og fimm ár sem ég hef starfað sem blaðamaður er að segja sannleikann.“
Eftir dvölina í fangelsi og vinnubúðum var þér boðið að ritstýra tímariti fyrir fanga. Hvernig stóð á því?
„Það var viðskiptajöfur í Moskvu semlangaði til að leggja peninga í þannig blað ogþá var farið að leita að blaðamanni meðháskólamenntun, reynslu af ritstjórn og semhafði setið í fangelsi. Og ég var eini maðurinnsem kom til greina. Ég ritstýrði þessutímariti í eitt ár og það naut mikilla vinsældameðal fanga. Þeir sendu okkur sögur, ljóð ogannað í þúsundatali. En eftir eitt ár var blaðiðskyndilega lagt niður.“
Paskó starfaði síðan á blaðinu Novaya Gazeta og deildi skrifstofu með Önnu Politkovskaju í þrjú ár. Þau ferðuðust oft saman um Rússland eða til útlanda: „Síðan var ég ritstjóri tímaritsins Ecologia i Pravo. Tímaritið, sem var fjármagnað með erlendu fé, fjallaði um umhverfismál og mannréttindi. En vegna hinna nýju laga um óháð félagasamtök sem komu í veg fyrir erlenda fjármögnun varð ég að leggja blaðið niður vorið 2007.“
Nú birtast greinar Paskós um Rússland á ensku á internetinu. Jafnvel þótt hann skrifi um grafalvarleg efni þá er stíll hans oft skemmtilega írónískur og hittinn. Allar greinar hans má lesa á blogginu: www. robertamsterdam.com.
Nú ertu að skrifa um gasleiðsluna sem Nord Stream áætlar að leggja gegnum Eystrasalt.
„Já, ég kvikmynda líka og tek viðtöl við fólk í löndunum sem þetta verkefni snertir.“
Er það ekki líka hættulegt, hið ríkisrekna Gasprom á jú 51 prósent í verkefninu?
„Ef ég skrifa um það að gamlar ömmur í Rússlandi fái ekki gas inn í húsin sín þar sem leiðslan er lögð, þrátt fyrir að þeim hafi verið lofað því, þá er það ekki hættulegt. En..“ segir hann alvarlegri: „Ef ég fer að grafast fyrir um það hvers vegna kostnaður við leiðsluna hefur margfaldast frá því fyrstu áætlanir voru kynntar, já, þá getur það orðið hættulegt fyrir mig.“
Æ færri blaðamenn í Rússlandi vinna eins og þú?
„Þeir eru enn til eins og til dæmis Andrey Novonkov frá Ribinsk. Það eru um það bil einn eða tveir þannig blaðamenn í hverjum landshluta og auðvitað fleiri í Moskvu.
Paskó skiptir nú um umræðuefni: „Ég hef tekið eftir því í Rússlandi að í fyrsta lagi er verið að setja æ fleiri fyrrverandi KGB menn á dómarastóla. Annað sem ég hef tekið eftir er að gömlum prófessorum og deildarstjórum í háskólunum er hent út og KGBmenn settir í staðinn. Stjórnendur og stjórnir háskóla og stofnana eru að fyllast af þeim sem eru hliðhollir Pútín.“
Og hvað gera þeir?
„Þeir eru að endurrita skólabækurnar. Ekki bara söguna. Þeir breyta áherslum.“
Hvernig?
„Á níunda áratugnum kom bylgja af nýjum lögum um frjálsara markaðskerfi í Rússlandi,
sem komu í staðinn fyrir gömlu sovésku lögin. En um leið og Pútíntímabilið hófst fóru þeir að „lagfæra“ þessi lög. Þessar breytingar eru ekki slæmar af því að þær séu vondar heldur vegna þess að þær eru lögfræðilega slæmar. Þeir byrjuðu á breytingum en nú eru þeir farnir að henda þessum tuttugu ára gömlu lögum og einfaldlega semja ný sem henta þeim. Og þetta geta þeir gert vegna þess að Dúman er algerlega undir valdi þeirra.“
Og hvað er svona slæmt við þessi nýju lög?
„Til dæmis nýju lögin um ferðir til og frá Rússlandi, innflytjendalög. Þeir bættu aðeins einni grein við. Hún hljóðar svona: „Þeim sem sækir um vegabréfsáritun má neita ef viðkomandi hefur skrifað eða sagt eitthvað niðrandi um Rússland eða stjórn þess.“ Rúmlega þrjátíu erlendum blaðamönnum hefur verið neitað um vegabréfsáritun í skjóli þessarar nýju greinar laganna. Ástæðan sú að þeir hafa einhvern tíma skrifað grein sem stjórnvöldum er ekki að skapi. Nýjasta dæmið er Natalia Morar sem bjó og vann í Moskvu en var neitað um að koma inn landið í desember. Hún er enn í Moldavíu og ekkert gerist í hennar máli og á meðan heldur hún áfram að búa hjá móður sinni í Moldavíu.“
Hvað gerist með erlenda blaðamenn í Rússlandi?
„Vinur minn Boris Reichester í Moskvu skrifar fyrir þýska vikuritið Focus. Lögreglan lemur hann af og til.“
Hvernig þá?
„Þeir handtaka hann, fara með hann á stöðina og berja hann hressilega. Síðan er honum
sleppt. Ég hef tekið eftir því að þýsku blaðamennirnir virðast vera þeir sem eru hvað hugrakkastir í skrifum sínum. Það er almennt vitað að Pútín elskar Þýskaland og því mun enginn þora að reka þýska blaðamenn frá Rússlandi. Af því „okkur líkar Þýskaland“ er minni hætta á því að þeim verði kastað út, þeir eru bara lamdir af og til. Þetta var bara eitt dæmi um nýju lögin,“ heldur Paskó ákveðinn áfram: „Það eru önnur lög sem eru algerlega hræðileg og þau eru kölluð andsvarslög gegn hryðjuverkum og hryðjuverkastarfsemi.“
Hvernig virka þau?
„Ef ég til dæmis skrifa að Pútín sé þjófur og slæmur fyrir Rússland og sé að láta myrða Rússa og hafi hafið glæpsamlegt stríð í Tsjetsjeníu, þá er hægt að ákæra mig samkvæmt þessum nýju lögum fyrir hryðjuverk og dæma í fangelsi.“
En nú birtast skrif þín bara á netinu á ensku. Er það ekki öruggara?
„Anna (Politkovskaja) hélt hún væri óhultvegna þess að hún væri þekkt á Vesturlöndum en svo reyndist ekki. (Anna var myrt fyrirutan heimili sitt í Moskvu árið 2006.) Pútínhafði rétt fyrir sér þegar hann sagði að húnværi ekki þekkt í Rússlandi. Þegar hún varmyrt var hún að vinna að grein um fjármálastarfsemisem tengdist stríðinu í Tsjetsjeníuog þá var greinilega tekin ákvörðun um aðtaka hana af lífi. Og ég veit að ef þeir ákveðaað stöðva mig þá munu þeir ekki vara migvið.“
Heldur?
„Heldur drepa mig beint.“ Nú þegjum við um stund því það er ekkert hægt að segja, þar til Paskó segir: „Skrifaðu vinsamlegast ekki í greinina þína það sem franskur blaðamaður gerði um daginn.“
Hvað skrifaði hann?
„Að ég birti greinar mína á and-rússnesku síðunni www.robertamsterdam.com. Þetta er ekki and-rússneskt heldur bara staður þar sem nýjustu greinar, kvikmyndir og upplýsingar um það sem er að gerast í Rússlandi birtast á fimm tungumálum. Ég hef verið beðinn um að skrifa greinar í rússnesk blöð undir dulnefni en það vil ég ekki.“
Nú hefur fjöldi Rússa yfirgefið landið. Hefur þú ekki hugleitt það?
„Ef fjölskyldu minni verður hótað þá mun ég gera það. En ég er blaðamaður og Rússland og rússneska er mitt mál. Þetta er stórt land og svo mikið meira en bara Pétursborg og Moskva. Þótt ég skrifi núna fyrir þessa netsíðu þar sem greinar mínar birtast á ensku þá er ég alltaf að skrifa um Rússland.“
Á Amnestyfundinum talaðir þú um að samtökin ættu að taka mál Mikhaíls Khodorkovskí upp á sína arma, hvers vegna?
„Vegna þess að hann hefur ekki fengið réttláta meðferð. Allt málið gegn honum ergegnumsýrt af andúð Pútíns á honum oghvert lögbrotið fylgt á fætur öðru. Amnestyskilgreinir samviskufanga á sérstakan hátten ég vona samt að í anda þessara mikilvægumannréttindasamtaka sé hægt að veitahonum og fleirum í Rússlandi aðstoð. Það ermikilvægt að vekja athygli á því að mannréttindiþeirra séu brotin,“ segir Grígorí
Paskó sem er þakklátur fyrir stuðninginn frá Amnesty og tuttugu og fjögur þúsund bréf sem meðlimir samtakanna um allan heim skrifuðu á meðan hann sat í fangelsi.
Hvers vegna skrifaðir þú þessar tvær bækur um lífið í fangelsum?
„Ég skrifaði bækurnar til þess að veita innsýn í þennan heim og hvernig maður breytist við þessa reynslu. Þrátt fyrir að svipaðar sögur hafi verið sagðar fyrr.“ Hann segir að lokum alvarlegur: „Einhver sagði að fangelsi í Rússlandi væru eins og helvíti á jörð en það er ekki rétt. Þau eru helvíti á jörð.“
