Þann 5. mars 2004 hóf Amnesty International alþjóðlega herferð til að binda enda á ofbeldi gegn konum.
Ofbeldi gegn konum er helsta mannréttindahneyksli okkar tíma.
Ofbeldi gegn konum og stúlkum er útbreiddasta mannréttindabrot okkar tíma. Það á sér stað í öllum menningar- og trúarsamfélögum, hver sem samfélagsgerðin er, og meðal allra þjóðfélagshópa.
Í Bretlandi hringir ein kona á mínútu eftir hjálp vegna heimilisofbeldis.
Meira en 370 ungar, fátækar konur, sú yngsta aðeins 11 ára, hafa verið numdar á brott, þeim nauðgað og þær myrtar í borgum við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna, án þess að yfirvöld hafi aðhafst að gagni til að rannsaka og taka á vandamálinu.
Í Bandaríkjunum er um 700.000 konum nauðgað ár hvert.
Í Suður-Afríku eru það unglingsstúlkur sem helst eiga á hættu að vera nauðgað.
50% allra morða í Bangladesh eru morð á konum, framin af mökum þeirra.
Um heim allan hafa 120 milljón stúlkur mátt þola limlestingu á kynfærum sínum.
Samkvæmt tölum frá Alþjóðabankanum má að minnsta kosti ein af hverjum fimm konum þola það að vera lamin eða nauðgað einhvern tíma á ævinni.
Þetta eru skammarlegar staðreyndir við upphaf 21. aldarinnar. Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna hafa komist að raun um að stórum hluta stúlkna í Búrúndí er nauðgað áður en þær verða 18 ára. Þessi sláandi staðreynd sýnir, enn og aftur, að konur og stúlkur eru fyrstu og oft hin gleymdu fórnarlömb stríðsátaka. Konur eru ekki óhultar, hvorki á friðartímum né á stríðstímum.
Í Pakistan eru hundruð kvenna drepin árlega af feðrum sínum eða bræðrum í nafni heiðurs.
Brúðir eru brenndar lifandi á Indlandi vegna þess að þær koma ekki með nægilegan heimamund.
Sums staðar í Afríku eru kynfæri stúlkna limlest í nafni trúarbragða eða menningar.
Framhjáhaldi kvenna og þungunum þeirra utan hjónabands er refsað með því að grýta þær til dauða í ýmsum löndum.
Í Sádi-Arabíu brunnu 15 stúlkur til dauða vegna þess að þeim var ekki leyft að yfirgefa skólasvæðið án þess að nota höfuðklúta og engir karlkyns ættingjar voru á staðnum til að taka við þeim.
Fyrir margar konur er heimilið skelfingarstaður, jafnvel í ríkum þjóðfélögum. Þann 5. mars 2004 hóf Amnesty International alþjóðlega herferð til að binda enda á ofbeldi gegn konum. Með hjálp venjulegs fólks, bæði manna og kvenna, munum við vinna bug á þessu mannréttindahneyksli. Það er í okkar höndum.
