Í hringiðunni í Kænugarði: frásögn sjónarvotts af mótmælunum í Úkraínu

Ég hef ekki orðið vitni að jafn mikilli vanrækslu mannréttinda og skorti á virðingu í landinu á allri minni ævi.

EuroMaydan mótmælin í Úkraínu hófust fyrir nákvæmlega þremur mánuðum. Ég hef ekki orðið vitni að jafn mikilli vanrækslu mannréttinda og skorti á virðingu í landinu á allri minni ævi, né hafa yfirvöld sýnt jafn skelfilega vangetu til að hlusta á raddir almennings. Ég varð vitni að ótrúlegu hugrekki venjulegs fólks sem stóð með réttindum sínum.

Í lok síðasta árs þegar Amnesty International í Úkraínu setti af stað fyrstu undirskriftasöfnun sína gegn hrottaskap og refsileysi lögreglu, gátum við ekki ímyndað okkur að við myndum standa frammi fyrir jafn umfangsmikilli misbeitingu á lögregluvaldi og raunin varð á í janúar og febrúar 2014.

Þegar átök við lögreglu brutust enn og aftur út 19. febrúar neyddumst við til að loka skrifstofu okkar í Kænugarði vegna þess hve ástandið var viðkvæmt. Ég var á Maydan-torginu – miðju mótmælanna í miðborginni – þá nótt sem að lögreglan kom í þriðju tilraun sinni til að „hreinsa“ svæðið.

Fyrr um daginn höfðu rúmlega 30 mótmælendur verið skotnir til bana í miðborginni. Lögreglan notaði byssukúlur og gúmmískot, nýjar rússneskar höggsprengjur, táragas, vatnsbyssur og tvo herflutningabíla gegn mótmælendum.

Það var eins og að vera í stríðsátökum. Þegar lögreglan braut niður varnargarða mynduðu mótmælendur eldvegg með því að brenna dekk og allt annað sem gat brunnið, þar á meðal föt.

Um fimm þúsund manns voru á torginu þar sem hver einasti einstaklingur hafði hlutverk. Sumir mynduðu raðir til að koma steinum og dekkjum í fremstu víglínu þar sem ungt fólk hætti lífi sínu til að hlífa okkur hinum. Ég sá þúsundir fólks hvaðanæva að úr landinu, á öllum aldri og úr mismunandi þjóðfélagshópum fullt af einbeitni, reisn og hugrekki. Ég fylltist stolti að sjá þetta fólk.

Frá EuroMaydan mótmælunum í Kænugarði.

Ég stóð nálægt miðju atburðanna þegar gúmmískot hæfði mig í fótlegginn. Ég særðist ekki og sársaukinn stóð aðeins yfir í um fimm mínútur þar sem skotið var úr mikilli fjarlægð. Fólk í kringum mig snéri sér við, tilbúið að aðstoða, þegar ég hrópaði af sársauka. Það var ekki hrætt. Við hlógum öll saman eftir að ég lét vita að það væri í lagi með mig.

Tveimur mínútum síðar var einn leiðtogi mótmælanna skotinn með gúmmískoti á meðan hann hélt ræðu. Sá sem skaut hann miðaði á andlit hans.  

Daginn eftir, þann 20. febrúar, brutust út átök á ný við Maydan-torgið. Talið er að rúmlega 60 manns hafi verið skotnir til bana af leyniskyttum. Mótmælendur náðu torginu aftur á sitt vald og lögreglusveitum var ýtt frá.

Í kjölfar fjölda dauðsfalla ákváð starfsfólk Amnesty International í Úkraínu að gefa blóð. Við höfðum samband við fimm mismunandi staði en á öllum stöðunum var fjöldi fólks að gefa blóð og ekki rými til að taka á móti fleirum. Við vorum sett á biðlista fyrir næsta dag.

Neðanjarðarlestakerfinu var lokað 19.febrúar. Margir flúðu borgina eða héldu sig heima fyrir. Þrátt fyrir það fjölgaði fólkinu á Maydan-torginu stöðugt. Rútur og bílar komu til borgarinnar og reyndu að komast hjá eftirlitsstöðum. Ég hitti fólk sem hafði gengið þrjá tíma í skóginum til að komast til borgarinnar.

Flestir þeirra sem létust á Maydan-torginu höfðu skotsár á hálsi. Samkvæmt lækni sem ég ræddi við var augljóst að atvinnumenn hefðu skotið þá til að drepa þar sem ekki er möguleiki að lifa af slík skotsár.

Líkum var komið fyrir á Maydan-torgi og þar sá ég fólk biðja bænir og gráta nálægt líkum vina sinna. Heildarfjöldi látinna var vel yfir 70 manns.

Ég leit yfir listann yfir látna í von um að ég þekkti engan. Sem betur fer þekkti ég engan en ekki voru allir jafn lánsamir.