Í tilefni af komu utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Íslands

Í tilefni af heimsókn utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Íslands hefur íslandsdeild Amnesty International farið fram á utanríkisráðherra Íslands krefjist lokunar Guantánamo.

Í tilefni af heimsókn utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Íslands hefur íslandsdeild Amnesty International farið fram á utanríkisráðherra Íslands krefjist lokunar Guantánamo. Sjá nánar meðfylgjandi bréf.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra
Utanríkisráðuneytið
Rauðarárstíg 25
150 Reykjavík                                                            

Reykjavík 29.05.2008

Háttvirti ráðherra               
 
Amnesty International vill hvetja yður til að taka upp í viðræðum við utanríkisráðherra Bandaríkjanna þau mannréttindabrot sem viðgangast í nafni „stríðsins gegn hryðjuverkum“ og fara fram á að Guantánamo verði lokað. Íslandsdeild Amnesty International leitar eftir stuðningi þínum við þessa mikilvægu kröfu. Með þessu bréfi fylgir áætlun Amnesty International til að binda enda á ólöglegt varðhald í „stríðinu gegn hryðjuverkum“.

Stefna og framkvæmdir Bandaríkjanna er lúta að varðhaldi í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ hafa grafið undan alþjóðlegri mannréttindalöggjöf. Vanvirðing við alþjóðleg mannréttindalög birtist m.a. í ótímabundnu varðhaldi fanga í Guantánamo, mannshvörfum, ófullnægjandi dómskerfi fyrir þá sem sakaðir eru um hryðjuverk, og leynilegum flutningum grunaðra til landa þar sem þeir gætu sætt pyndingum og annarri illri meðferð.

Valdhafar í Bandaríkjunum, þ.á.m. George W. Bush forseti, hafa sagt að Guantánamo eigi að loka. Amnesty International leggur áherslu á að það skuli gert með þeim hætti að mannréttindi fanganna verði virt. Lokun Guantánamo má heldur ekki nota sem afsökun til að flytja fanga annað eða til að draga athygli frá því kerfi framsals og leynivarðhalds sem Bandaríkin viðhalda.

Amnesty International hvetur bandarísk yfirvöld til að loka Guantánamo og virða mannréttindi fanganna sem skulu aðeins sóttir til saka fyrir dómi sem stenst alþjóðleg viðmið um réttláta dómsmeðferð. Amnesty International hvetur bandarísk yfirvöld jafnframt til að láta af þvinguðum mannshvörfum og leynilegu varðhaldi en slíkt brýtur gegn alþjóðlegum skuldbindingum Bandaríkjanna.

Amnesty International hefur endurtekið fordæmt hryðjuverk sem hafa valdið því að þúsundir óbreyttra borgara hafa særst eða látist. Samtökin eru þess þó fullviss að raunverulegt öryggi gegn hryðjuverkum náist ekki nema mannréttindakerfið sé styrkt, en ekki grafið undan því með ólöglegri háttsemi.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur yður  til mótmæla alvarlegum mannréttindabrotum sem bandarísk yfirvöld bera ábyrgð á og krefjast þess að varðhaldsstöðinni við Guantánamo-flóa verði lokað og varðhaldsstefna og framkvæmdir Bandaríkjanna samræmist alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum.
 
Virðingarfyllst
 
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir
Framkvæmdastjóri
Íslandsdeildar Amnesty International

Áætlun Amnesty International til að binda enda á ólöglegt varðhald í „stríðinu gegn hryðjuverkum“[1]

·       Bandaríkin ættu að loka varðhaldsstöðinni við Guantánamo-flóa.
·       Binda ætti enda á leynivarðhaldskerfi Bandaríkjanna undir eins og fyrir fullt og allt. Öllum leynilegum varðhaldsstöðvum ætti að loka, hvar svo sem þær eru staðsettar.
·       Öllum föngum  í „stríðinu gegn hryðjuverkum“, líka þeim sem haldið er í Guantánamo, ætti að sleppa undir eins nema þeir verði ákærðir og fái réttlát réttarhöld.
·       Bandaríkin ættu að lýsa því yfir opinberlega að þau muni ekki stuðla að leynilegu varðhaldi, „framsali“ eða mannshvörfum í málum grunaðra hryðjuverkamanna.
·       Þeim sem sleppt er skal ekki snúið til landa þar sem hætta er á að þeir sæti alvarlegum mannréttindabrotum.
·       Mál hvers fanga ætti að meta á sanngjarnan og gagnsæjan hátt til að meta hvort þeir geti snúið aftur til heimalands síns eða hvort leita ætti annarra úrræða.
·       Þeir sem sæta réttarhöldum ættu að vera ákærðir fyrir viðurkenndan glæp og hljóta réttlát réttarhöld fyrir sjálfstæðum og hlutlausum dómstól, t.d. alríkisdómstól í Bandaríkjunum. Ekki skal dæma ákærðu til dauða.
·       Engar upplýsingar fengnar með pyndingum eða annars konar ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu ættu að teljast leyfilegar fyrir dómi, nema gegn þeim sem sakaðir eru um pyndingar.
·       Allir bandarískir embættismenn ættu að hætta að gera ráð fyrir að menn handteknir í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ séu sekir þar til sakleysi þeirra er sannað.
·       Lög um herdómstóla (Military Commissions Act 2006) ætti að afnema eða breyta í samræmi við alþjóðalög þar sem þau tryggja nú ekki réttinn til réttlátra réttarhalda, neita föngum um habeas corpus og ýta undir refsileysi fyrir mannréttindabrot.
·       Bandarísk yfirvöld ættu að bjóða fimm sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna (fjórum sérstökum eftirlitsfulltrúum og formanni vinnuhóps um geðþóttavarðhald) að heimsækja Guantánamo og aðrar varðhaldsstöðvar Bandaríkjamanna án takmarkana. Það ættu ekki að vera neinar hömlur á einslegum samræðum milli sérfræðinga og fanga.
·       Alþjóðleg mannréttindasamtök, m.a. Amnesty International, ættu einnig að fá slíkan aðgang.
·       Bandaríkin ættu að veita saklausum föngum bætur, bæði í formi peninga og endurhæfingar.
 

[1] Sjá nánari lýsingu á áætluninni: USA: Abandon military commissions, close Guantánamo, AI Index AMR 51/118/2007
http://web.ambesty.org/library/Index/ENGAMR511182007