Íran: hættið að nota Basij-sveitirnar

Amnesty International hvetur stjórnvöld í Íran þegar í stað til að hætta að nota Basij-sveitirnar, sem tengdar eru stjórnvöldum, til að hafa eftirlit með mótmælum í landinu.

Amnesty International hvetur stjórnvöld í Íran þegar í stað til að hætta að nota Basij-sveitirnar, sem tengdar eru stjórnvöldum, til að hafa eftirlit með mótmælum í landinu. Hvatningin kemur í kjölfar fregna um að meðlimir sveitanna hafi beitt mótmælendur ofbeldi og í ljósi sögu Basij-sveitanna, sem hafa framið margvísleg mannréttindabrot. Sveitirnar eru tengdar öryggisyfirvöldum landsins, en lúta ekki sama aðhaldi og þær.

Basij-sveitirnar eru vopnaðar sjálfboðasveitir manna og kvenna undir yfirstjórn Íslömsku byltingarvarðanna. Meðlimi sveitanna má finna í skólum, háskólum, ríkis- og einkastofnunum, verksmiðjum og jafnvel innan ættbálka. Basij-sveitirnar eru oft notaðar til að halda uppi lögum og reglu og bæla niður andóf. Sveitirnar hafa oft verið ásakaðar um að beita andófsmenn miklu harðræði.

 

Margir þeirra sem tóku þátt í mótmælunum nýverið halda því fram að vopnað og óeinkennisklætt fólk, sem þeir telja að tilheyri Basij-sveitunum, hafi beitt óþarfa hörku og framið mannréttindabrot gegn mótmælendum á götum úti. Myndband af meðlimi í Basij þar sem hann skýtur úr glugga byggingar sem Basij-sveitirnar nota, á mótmælendur mánudaginn 15. júní hefði átt að leiða til tafarlausrar rannsóknar yfirvalda. Átta manns létust í þeim mótmælum. Annað myndaband af dánarstund ungrar konu, Neda að nafni, hefur farið víða og hermt er að meðlimir Basij-sveitanna hafi verið þar að verki.

Viðbrögð íranskra yfirvalda hafa ekki verið þau að hefja rannsókn á dauða þeirra, sem látist hafa í mótmælunum, heldur hafa þau sent frá sér yfirlýsingar þess efnis að brugðist verði við mótmælunum á „byltingarkenndan hátt“ af hálfu Íslömsku byltingarvarðanna, Basij-sveitanna og öðrum lögreglu- og öryggissveitum.

Í kjölfar ræðu æðstaklerks Íran, Ayatollah Ali Khamenei, föstudaginn 19. júní þar sem hann krafðist þess að bundinn yrði endi á mótmælin var blásið til frekari mótmæla daginn eftir í Teheran og öðrum borgum og bæjum víða um landið. Yfirvöld segja að 13 manns hafi látist og mun fleiri særst. Einnig segjast þau hafa handtekið yfir 400 mótmælendur. Mótmælum í Teheran mánudaginn 22. júní var svarað með táragasi og handtökum.

 

Amnesty International hvetur írönsk yfirvöld til að rannsaka til hlítar öll dauðsföll, þar með taldar mögulegar aftökur án dóms og laga, og láta hina seku sæta ábyrgð.