Íran: Nazanin og Anoosheh laus úr haldi

Nazanin Zaghari-Ratcliffe og Anoosheh Ashoori hafa verið leyst úr haldi í Íran. Þau eru bæði bresk-írönsk og eru komin aftur til Bretlands. Samanlagt voru þau rúm tíu ár í fangelsi eftir óréttmæta handtöku. Amnesty International fagnar þessum fréttum þótt fyrr hefði verið.  

Mál Nazanin var í netákalli Íslandsdeildarinnar í júlí 2019. Hún var sakfelld fyrir njósnir í Íran vorið 2016 og dæmd í fimm ára fangelsi. Þá var dóttir hennar aðeins eins árs gömul. Nazaninn átti að losna úr haldi í mars 2021 en írönsk yfirvöld tilkynntu henni að hún hefði verið dæmd á ný í eins árs fangelsi auk ferðabanns í eitt ár í kjölfarið.   

Bretlandsdeild Amnesty International hefur lengi þrýst á bresk stjórnvöld að beita sér sem mest í máli Nazanin og annarra bresk-íranskra einstaklinga í haldi og koma í veg fyrir að írönsk stjórnvöld herji enn frekar á einstaklinga með tvöfaldan ríkisborgararétt. Frá árinu 2016, þegar Nazanin var fyrst handtekin, hafa þrír bresk-íranskir einstaklingar verið handteknir til viðbótar. Anosheh Ashoori var á meðal þeirra auk Morad Tahbaz and Mehran Raoof sem eru enn í haldi í Íran.  

„Nazanin og Anoosheh hefðu aldrei átt að vera handtekin. Þau voru bæði í fangelsi á grundvelli falskra ákæra um að ógna þjóðaröryggi sem er kunnugleg aðferð í Íran. Það er enginn efi um að írönsk yfirvöld hafa notað Nazanin og Anoosheh sem peð í pólitískum leik. Írönsk yfirvöld hafi sýnt úthugsaða grimmd með því að fullnýta sér fangavist þeirra í diplómatískum viðræðum“.

Sacha Deshmukh, framkvæmdastjóri Bretlandsdeildar Amnesty International.