Dauðarefsingin er enn notuð í „stríðinu gegn fíkniefnum“ þar sem ískyggilegur fjöldi ríkja í heiminum tekur fólk af lífi vegna sakfellingar fyrir fíkniefnabrot en aftökurnar eru skýrt brot gegn alþjóðalögum, segir í yfirlýsingu Amnesty International í tilefni af alþjóðlegum degi gegn dauðarefsingunni 10. október.
Dauðarefsingin er enn notuð í „stríðinu gegn fíkniefnum“ þar sem ískyggilegur fjöldi ríkja í heiminum tekur fólk af lífi vegna sakfellingar fyrir fíkniefnabrot en aftökurnar eru skýrt brot gegn alþjóðalögum, segir í yfirlýsingu Amnesty International í tilefni af alþjóðlegum degi gegn dauðarefsingunni 10. október.
Að minnsta kosti 11 ríki í heiminum, þar á meða Kína, Indónesía, Íran, Malasía og Sádi-Arabía, hafa kveðið upp dauðadóma eða tekið fólk af lífi fyrir fíkniefnabrot síðastliðin tvö ár og tugir ríkja halda enn í dauðarefsingu fyrir fíkniefnabrot.
„Það veldur vonbrigðum að fjöldi landa haldi enn fast í gallaðar hugmyndir um að aftökur á fólki muni á einhvern hátt enda fíkn eða draga úr glæpum. Dauðarefsingin gerir hvorki gagn í baráttunni gegn glæpum né veitir fólki sem þarf á hjálp að halda aðgang að fíkniefnameðferð,“ segir Chiara Sangiorgio, sérfræðingur Amnesty International í dauðarefsingum.
Alþjóðalög einskorða beitingu dauðarefsingarinnar einungis við „alvarlegustu glæpi“ sem almennt er skilgreint að eigi aðeins við morð af yfirlögðu ráði. Fíkniefnabrot falla ekki undir þann flokk. Að auki miða alþjóðalög á að ríki færi sig í átt að afnámi dauðarefsingarinnar.
Þrátt fyrir það réttlæta ríki beitingu dauðarefsingarinnar sem leið til að takast á við fíkniefnaviðskipti eða fíkniefnanotkun. Þessi ríki líta framhjá gögnum sem sýna að áhersla á mannréttindi og almannaheill, þar á meðal með forvarnarstarfi gegn misnotkun vímuefna og aðgengi að meðferð dregur úr dauðsföllum af völdum fíkniefna og kemur í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma. Jafnvel í tengslum við ofbeldisfulla glæpi þá eru ekki nein gögn sem sýna að hættan á aftöku hafi meiri fyrirbyggjandi áhrif en aðrar refsingar.
Í Indónesíu, sem dæmi, hefur ríkisstjórnin undir forseta Joko Widodo heitið því að nota dauðarefsinguna til að berjast gegn „þjóðarvá vegna fíkniefna“. Fjórtán einstaklingar hafa verið teknir af lífi það sem af er árinu 2015 eftir að hafa verið sakfelldir fyrir fíkniefnabrot og ríkistjórnin hefur tilkynnt að öllum beiðnum um mildun dóms eftir sakfellingu fyrir fíkniefnabrot verði synjað.
„Beitingu dauðarefsingar fyrir fíkniefnabrot er langt frá því eina áhyggjuefnið. Shahrul Izani Suparman var, til dæmis, einungis 19 ára gamall þegar hann fannst rúmlega 200 gr af kannabisefni með í fórum sínum og var sjálfkrafa talinn sekur fyrir fíkniefnaviðskipti og fékk lögbundinn dauðadóm í Malasíu,“ segir Chiara Sangiorgio.
Í mörgum þeim löndum þar sem dauðarefsingunni er beitt fyrir fíkniefnabrot eru dauðadómar kveðnir upp eftir augljós ósanngjörn réttarhöld sem eykur enn frekar á óréttlætið. Sakborningum er ítrekað neitað um aðgang að lögfræðingi eða neyddir til „játningar“ með pyndingum og annarri illri meðferð sem er síðan lagt fram sem sönnunargagn í löndum eins og Indónesíu, Íran og Sádi-Arabíu.
Í apríl 2016 mun allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, eitt helsta ákvörðunarvald Sameinuðu þjóðanna, koma saman á sérstökum fundi um fíkniefni til að ræða um forgangsröðun vegna fíkniefnaeftirlits í heiminum, þar á meðal um beitingu dauðarefsingar fyrir fíkniefnabrot. Síðasti sérstaki fundur um fíkniefnamál var haldinn árið 1998.
„Sérstakur fundur allsherjarráðs Sameinuðu þjóðanna á næsta ári býður upp á mikilvægt tækifæri ríkja til að tryggja að stefnur um fíkniefnamál innan hvers ríki og á alþjóðavísu standist alþjóðleg mannréttindalög. Ríki verða í eitt skipti fyrir öll að binda enda á beitingu dauðarefsingar fyrir fíkniefnabrot sem fyrsta skref í átt að afnámi dauðarefsingarinnar, sagði Chiara Sangiorgio.
Dæmi frá ýmsum löndum
Kína tók fleiri af lífi heldur en öll heimsbyggðin til samans á síðasta ári en tölur um dauðarefsingar er ríkisleyndarmál og því er ómögulegt að reikna út nákvæma tölu. Miðað við gögn sem hægt er að staðfesta þá er verulegur hluti fólks sem tekið er af lífi sakfellt fyrir fíkniefnabrot. Kína hefur tekið hikandi skref til að draga úr beitingu dauðarefsingar á síðustu árum, þar á meðal með því að fækka glæpum sem varða við dauðarefsingu. Fíkniefnabrot varða þó enn við dauðarefsingu.
Indónesía hefur tekið 14 manns af lífi á þessu ári fyrir fíkniefnabrot. Þetta er er afturför fyrir land sem hafði fyrir nokkrum árum síðan stigið skref í átt að stöðvun aftaka og hafði náð árangri í að leitast eftir mildun á dauðadómum indónesískra ríkisborgara á dauðadeild í öðrum löndum. Beitingu dauðarefsingar í Indónesíu er meingölluð þar sem grunaðir eru ítrekað pyndaðir til „játningar“ eða hljóta óréttlát réttarhöld.
Íran er í öðru sæti yfir mestan fjölda af aftökum á eftir Kína og hefur landið tekið þúsundir fólks af lífi fyrir fíkniefnabrot á síðustu áratugum. Fíkniefnalög í Íran eru sérstaklega óvægin þar sem að einstaklingur getur verið dæmdur til dauða fyrir að hafa í fórum sér 30 gr af heróíni eða kókaíni. Rúmlega 700 aftökur hafa farið fram á þessu ári, – og eru margir þeir sem hljóta dauðadóm erlendir ríkisborgarar og fólk sem kemur úr erfiðum efnhagslegum eða félagslegum aðstæðum.
Malasía er með lögbundinn dauðadóm fyrir fíkniefnaviðskipti og allir sem finnast með í fórum sínum ákveðið magn af ólöglegum efnum eru sjálfkrafa álitnir fíkniefnasalar. Malasía gefur ekki út upplýsingar um aftökur en Amnesty International áætlar að um helmingur dauðadóma síðustu ára séu fyrir fíkniefnabrot.
Aftökur fyrir fíkniefnabrot í Sádi-Arabíu hafa stóraukist síðustu þrjú ár. Árið 2014 var næstum helmingur þeirra 92 fanga sem vitað var að voru teknir af lífi, sakfelldir fyrir fíkniefnabrot. Réttarkefið í Sádi-Arabíu skortir helstu varnagla til að tryggja réttindi um sanngjörn réttarhöld. Dauðadómur er oft kveðinn eftir ósanngjarnan og stuttan málflutning, sem í sumum tilfellum fer fram með leynd.
Bakgrunnur
Árið 2014 og 2015 skráði Amnesty International aftökur og dauðadóma fyrir fíkniefnabrot í eftirfarandi löndum: Kína, Indónesíu, Íran, Kúveit, Malasíu, Singapúr, Sri Lanka, Tælandi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Víetnam.
Í dag eru fíkniefnabrot, sem geta verið af ýmsum toga, allt frá fíkniefnaviðskiptum til vörslu fíkniefna, refsiverð með dauðadómi í rúmlega 30 löndum.
Amnesty International er á móti dauðarefsingunni í öllum tilvikum án undantekinga, óháð ástæðum og aðstæðum glæps, sekt eða sakleysi eða aðferð ríkis við aftöku. Hún brýtur á réttinum til lífs eins og lýst er yfir í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og er hin endanlega grimmilega, ómannlega og vanvirðandi meðferð eða refsing.
