Þann 27. október síðastliðinn lögðu níu ríki á
vettvangi Sameinuðu þjóðanna hart að El Salvador að breyta úreltri og þrúgandi
löggjöf um blátt bann við fóstureyðingum í landinu.
Þann 27. október síðastliðinn lögðu níu ríki á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hart að El Salvador að breyta úreltri og þrúgandi löggjöf um blátt bann við fóstureyðingum í landinu. Meðal þeirra ríkja sem lögðu fram tilmæli um breytingar á löggjöfinni voru: Ísland, Ástralía, Bretland,Tékkland, Þýskaland, Lúxemborg, Slóvenía, Svíþjóð og Spánn. Tólf önnur ríki lýstu jafnframt yfir áhyggjum sínum af áframhaldandi mismunun í garð kvenna í El Salvador.
Að sögn Amnesty International jafngilda lögin stofnanabundnu ofbeldi, pyndingum og annarri illri meðferð gagnvart konum og stúlkum. Blátt bann við fóstureyðingum nær til allra kringumstæðna, óháð aldri, eða hvort kona eða stúlka hefur sætt nauðgun eða líf eða heilsa konu eða stúlku er í hættu. Þær konur sem eru dæmdar sekar um fóstureyðingu geta átt yfir höfði sér allt frá tveggja til átta ára fangelsisdóm og heilbrigðistarfssfólk sem fundið er sekt um að aðstoða við fóstureyðingar eða framkvæma þær, getur hlotið allt að tólf ára dóm. Jafnvel þær konur sem missa fóstur geta átt yfir höfði sér hátt í fjörtíu ár í fangelsi séu þær fundnar sekar um manndráp. „Við höfum séð frá fyrstu hendi hversu hrikaleg áhrif þessi lög hafa á líf kvenna og stúlkna í El Salvador, allt frá því að konur láti lífið í kjölfar ólöglegra fóstureyðinga til fjörtíu ára fangavistunar vegna fósturmissis. Nú hafa fulltrúar frá hinum ýmsu löndum mælt sömu röddu og samtökin og sagt, nú er nóg komið!“ , segir Erika Guevara Rosas framkvæmdastjóri Ameríkuteymis Amnesty International.
Í nýlegri skýrslu Amnesty International, On the brink of death: Violence against women and the abortion ban in El Salvador, eru dæmi tekin af konum sem hafa misst fóstur eða farið í fóstureyðingu og hlotið allt að fimmtíu ára fangelsisdóm í kjölfar tilkynningar frá heilbrigðisstarfsfólki til lögreglu. Sakfellingin byggir oftast á dómi um manndráp.
Spánn var meðal þeirra ríkja sem kallaði eftir breytingum á löggjöfinni í El Salvador en fyrr á þessu ári féllu spænsk stjórnvöld frá frumvarpi að lögum sem hefði takmarkað mjög aðgengi að fóstureyðingum í landinu. Fulltrúi Spánar beindi eftirfarandi tilmælum til El Salvador á vettvangi Sameinuðu þjóðanna: „Konur og stúlkur verða að hljóta kynfræðslu og fræðslu sem lýtur að barneignum…þá verður að leysa úr haldi allar þær konur og stúlkur sem sitja í fangelsi fyrir fóstureyðingu og vegna fósturmissis og eyða verður sakaskrám þeirra“.
Þann 25. september síðastliðnn ýtti Amnesty International úr vör undirskriftasöfnun þar sem skorað var á stjórnvöld í El Salvador að gera breytingar á löggjöfinni um fóstureyðingar. Alls hafa safnast rúmlega 110.000 undirskriftir frá einstaklingum um heim allan. Íslandsdeild Amnesty International tók þátt í undirskriftasöfnuninni og voru undirtektirnar hér á landi hreint ótrúlegar. Alls söfnuðust 5.077 undirskriftir á skömmum tíma í netákalli deildarinnar (www.netakall.is). Þakkar Íslandsdeild Amnesty International öllum þeim sem lögðu undirskriftasöfnunni lið. Þess má jafnframt geta að öðru undirskriftaátaki vegna El Salvador verður hrint af stað í desember í gegnum sms-aðgerðnet deildarinnar. Undirskriftasöfnunni er ætlað að þrýsta á stjórnvöld í El Salvador að afglæpavæða fóstureyðingar og veita konum og stúlkum aðgang að löglegri fóstureyðingu þegar þungun er afleiðing nauðgunar eða sifjaspells og/eða þegar líf eða heilsa stúlku eða konu er í hættu. Ennfremur skora samtökin á stjórnvöld í El Salvador að leysa úr haldi allar konur og stúlkur sem misst hafa fóstur eða sótt fóstureyðingu, án tafar og skilyrðislaust.
„Einungis með því að takast á við útbreidd áhyggjuefni ríkja um ástandið í El Salvador geta stjórnvöld sýnt fram á að um framsækið, umhyggjusamt samfélag sé að ræða sem virðir alþjóðleg mannréttindaviðmið“ segir Erika Guevara Rosa.
El Salvador fer nú yfir tilmæli ríkjanna níu sem lögð voru fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og mun kynna í mars 2015 hvaða tilmæli verða tekin til greina.
