Á nýafstöðnum leiðtogafundi Evrópuráðsins í Varsjá skrifaði Davíð Oddsson utanríkisráðherra fyrir hönd Íslands undir samning Evrópuráðsins gegn mansali.
Íslandsdeild Amnesty International fagnar undirskrift Íslands og hvetur Alþingi til að staðfesta samninginn strax á haustþingi.
Samningurinn er mikilvægt framfaraskref til verndar réttindum fólks sem sætir mansali. Hann er fyrsti alþjóðlegi samningurinn sem saminn er til að tryggja slíka mannréttindavernd. Evrópuráðið hefur með gerð samningsins viðurkennt nauðsyn þess að ríkisstjórnir veiti fólki sem selt er mansali vernd og stuðning.
Samningurinn leggur áherslu á að mansal sé brot á mannréttindum og árás á mannlega reisn. Samningurinn felur í sér að ríki sem gerast aðilar að honum geri ýmsar ráðstafanir í eigin landi og í samvinnu við önnur lönd. Þessar ráðstafanir leitast við að koma í veg fyrir mansal, sækja þá til saka sem bera ábyrgð á mansali og vernda og virða réttindi þeirra sem sæta mansali.
Amnesty International hefur ásamt fjölmörgum öðrum mannréttindasamtökum barist fyrir mannréttindavernd fólks sem selt er mansali og tóku samtökin virkan þátt í gerð samningsins með tilögum og athugasemdum við drög hans.
Samninginn í heild sinni má finna á slóðinni:
https://wcd.coe.int/ViewDoc.jsp?id=828587&BackColorInternet=9999CC&BackColorIntranet=FFBB55&BackColorLogged=FFAC75
