Íslandsdeild Amnesty International hvetur forsætisráðherra til að undirrita og fullgilda valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi

Virðing fyrir efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum og vernd þeirra hefur aldrei verið eins brýn og nú. Íslandsdeild Amnesty International vill því ítreka fyrri hvatningar til íslenskra stjórnvalda að skrifa undir og fullgilda valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

 

Íslandsdeild Amnesty International hefur sent forsætisráðherra bréf þar sem hvatt er til að Ísland undirriti og fullgildi valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Bréfið má lesa hér að neðan.

 

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra

Forsætisráðuneytið

v/Lækjargötu

150 Reykjavík                                                          Reykjavík 08.09.2010

                                     

 

Efni: Valfrjáls bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi

                                                                            

Háttvirti forsætisráðherra                               

 

Virðing fyrir efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum  og vernd þeirra hefur aldrei verið eins brýn og nú. Íslandsdeild Amnesty International vill því ítreka fyrri hvatningar til íslenskra stjórnvalda að skrifa undir og fullgilda valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.[1]

Bókunin gefur einstaklingum og hópum kost á að leita réttar síns ef brotið er á ofangreindum réttindum og fá umsagnir frá nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Bókunin er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að tryggja aðgang að réttlæti fyrir þolendur mannréttindabrota. Fólk sem lifir í sárri fátækt og hópar sem eru á jaðri samfélaga sætir alvarlegustu brotunum á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, þar með talið réttinum til húsnæðis, fæðis, vatns og hreinlætis, svo og réttinum til heilsu og menntunar.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur yður til að veita forystu í þessu mikilvæga máli.  Ríkisstjórnin myndi með aðild Íslands að bókuninni sýna raunverulega skuldbindingu gagnvart vernd mannréttinda og virðingu fyrir þeim, auk þess sem aðild að viðaukanum er raunhæft skref til að útrýma fátækt heima og heiman. Aðild Íslands að viðaukanum myndi einnig senda mikilvæg skilaboð til annarra ríkja um óskoraðan rétt allra sem sæta mannréttindabrotum á úrlausn sinna mála.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna voru samþykktir tveir alþjóðlegir samningar árið 1966 sem eru sú meginstoð sem öll mannréttindavernd byggir á. Sama ár var gerð valfrjáls bókun við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Ísland fullgilti þá bókun 22. ágúst 1979. Aftur á móti var það ekki fyrr en árið 2008 að sambærileg bókun var gerð  við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Öll mannréttindi eru samofin og innbyrðis háð, eins og kemur skýrt fram bæði í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og Vínaryfirlýsingunni sem samþykkt var á mannréttindaþinginu í Vínarborg árið 1993. Valfrjálsa bókunin sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti hinn 10. desember 2008 mun tryggja að einstaklingar, sem halda því fram að brotið hafi verið á þeim, geti lagt erindi fyrir sérstaka nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Nefndin mun taka mál til umfjöllunar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ríkið sem í hlut á og einstaklinginn eða þann hóp sem leggur fram málið. 

Íslandsdeild Amnesty International hvetur íslensk yfirvöld til að taka afstöðu með mannréttindum, undirrita og fullgilda bókunina og stuðla með því að aukinni vernd mannréttinda og virðingu fyrir þeim.

Til þess að bókunin gangi í gildi þurfa einungis tíu ríki að fullgilda hana.[2] Íslandsdeild Amnesty International vonar að Ísland verði í fararbroddi og sýni öðrum ríkjum mikilvægt fordæmi í mannréttindavernd.

 

Virðingarfyllst

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir

Framkvæmdastjóri

Íslandsdeildar Amnesty International

  

[1]  Með bréfinu fylgir bæklingur frá Amnesty International: MAKE OUR RIGHTS LAW, enforce economic, social and cultural rights, ACT 35/002/2010

 

[2] Þjátíu og þrjú aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa nú þegar skrifað undir bókunina og tvö þeirra fullgilt hana.