Ísrael: Gögn um stríðsglæpi og heilu fjölskyldurnar þurrkaðar út á Gaza

Amnesty International hefur rannsakað og skráð fimm ólögmætar árásir Ísraels á Gaza, þar á meðal handahófskenndar árásir þar sem fjöldi óbreyttra borgara lét lífið. Þessar árásir ollu gríðarlegri eyðilegginu og í sumum tilfellum þurrkuðust heilu fjölskyldurnar út. Í öllum fimm árásunum braut Ísrael alþjóðleg mannúðarlög. Amnesty International heldur áfram að rannsaka árásir á Gaza.

„Þessar fimm árásir eru aðeins toppurinn á ísjakanum á hryllingnum sem Amnesty hefur skráð og sýna hrikaleg áhrif loftárása Ísraels á íbúa Gaza. Í 16 ár hefur ólögmæt herkví Ísraels á Gaza gert svæðið að stærsta fangelsi í heimi undir berum himni. Nú verður alþjóðasamfélagið að bregðast tafarlaust við til að koma í veg fyrir að svæðið breytist í risastóran grafreit.“

Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International

Rannsókn Amnesty International

Rannsókn Amnesty International einblínir á fimm ólögmætar árásir þar sem íbúðarbyggingar, flóttamannabúðir, fjölskylduheimili og almenningsmarkaður voru sprengd. Rætt var við eftirlifendur og vitni að árásunum, gervitunglamyndir voru greindar og ljósmyndir og myndbönd sannreynd til að skrásetja fimm loftárásir Ísraels á tímabilinu 7.-12. október. Rannsókn Amnesty International byggir á viðtölum við 17 einstaklinga sem lifðu af árásir eða urðu vitni að þeim. Einnig voru tekin símaviðtöl við sex einstaklinga sem höfðu misst ástvin.

Amnesty International hefur ekki fengið leyfi frá ísraelskum stjórnvöldum til að fara inn í Gaza frá árinu 2012 og því hafa samtökin þurft að reiða sig á rannsakendur sem hafa aðsetur í Gaza. Þeir fóru á árásarstaðina og söfnuðu vitnisburðum.

Ísraelsher staðhæfir að árásir þeirra beinist eingöngu að hernaðarlegum skotmörkum en í mörgum tilfellum fann Amnesty International engar sannanir fyrir því að meðlimir vopnaðra hópa eða hernaðarleg skotmörk væru í nágrenni við sprengingarnar. Einnig kom í ljós að Ísraelsher leitaði ekki allra leiða til að vernda palestínska óbreytta borgara í árásunum, þar á meðal með því að gefa ekki út tilhlýðilegar viðvaranir. Í sumum tilvikum fengu óbreyttir borgarar engar viðvaranir og í öðrum tilvikum voru þær ekki fullnægjandi.

Heilu fjölskyldurnar þurrkast út

Árás Ísraelshers þann 7. október sprengdi þriggja hæða íbúðarbyggingu þar sem þrjár kynslóðir al-Dos fjölskyldunnar bjuggu. Í árásinni létust 15 fjölskyldumeðlimir, þar af sjö börn. Mohammad al-Dos missti fimm ára son sinn Rakan í árásinni. Hann sagði Amnesty International eftirfarandi:

„Tvær sprengjur féllu skyndilega ofan á bygginguna sem eyðilagðist. Við konan mín vorum heppin að lifa af þar sem við vorum á efstu hæðinni. Hún var komin níu mánuði á leið og fæddi barnið á al-Shifa spítalanum degi eftir árásina. Allri fjölskyldu okkar hefur verið tortímt.“

Mohammad al-Dos, faðir 5 ára drengs sem lét lífið í árás

Í byggingunni var fjöldi óbreyttra borgara sem styður við vitnisburð þeirra sem lifðu af árásina um að Ísraelsher hafi ekki gefið þeim neina viðvörun. Engar sannanir voru fyrir því að hernaðarleg skotmörk væru á svæðinu. Hafi Ísraelsher ráðist á íbúðarbyggingu vitandi að þar væru aðeins óbreyttir borgarar er það bein árás á óbreytta borgara sem er stríðsglæpur. Ísraelsher gaf enga ástæðu fyrir árásinni.

Loftárás Ísraels þann 10. október drap 12 meðlimi Hijazi- fjölskyldunnar og fjóra nágranna þeirra. Þrjú börn voru á meðal hinna látnu. Ísraelsher sagði að skotið hefði verið á skotmörk Hamas en gaf engar frekari upplýsingar eða sannanir fyrir því.

Kamal Hijazi missti systur sína, tvo bræður og eiginkonur þeirra, sjö frænkur og frændur í árásinni.

„Fjölskylduheimili okkar, þriggja hæða hús, var sprengt klukkan 17:15. Þetta var óvænt, án viðvörunar. Þess vegna vorum við öll heima.

Kamal Hijazi

Ahmad Khalid Al-Sik, nágranni þeirra lét einnig lífið. Faðir hans lýsti því hvað gerðist.

„Ég var heima í íbúðinni okkar og Ahmad var á neðri hæðinni þegar húsið á móti [hús Hijazi fjölskyldunnar] var sprengt og hann lét lífið. Hann var að fara í klippingu hjá rakara sem er við hliðina á innganginum á byggingunni okkar. Þegar Ahmad fór til að fara í klippingu gat ég ekki ímyndað mér að ég ætti aldrei eftir að sjá hann aftur. Sprengingin var skyndileg og óvænt. Það var engin viðvörun. Fólk var upptekið við að sinna daglegum störfum.“

Faðir Ahmad Khalid Al-Sik

Ófullnægjandi viðvaranir

Í sumum tilfellum gaf Ísraelsher ekki út neinar viðvaranir eða þær voru ófullnægjandi. Í engum tilfellum tryggði herinn að óbreyttir borgarar hefðu öruggt skjól að leita til. Í árásinni á Jabalia-markaðinn hafði fólk yfirgefið heimili sín vegna viðvörunar til þess eins að láta lífið þar eftir að hafa flúið staðinn sem það hélt að yrði sprengdur. Í öðru tilfelli var gefin út viðvörun en að fimm tímum liðnum frá því að sprengingar áttu að hefjast hafði ekkert gerst. Sumir íbúar fóru þangað til að ná í dót þar sem þeir töldu það óhætt að koma þangað við án þess að dvelja þar. Á þessum stutta tíma féllu sprengjur og börn voru meðal hinna látnu.

Það að hafa gefið út viðvörun í þessu tilfelli fríar ekki herinn ábyrgð. Sérstaklega í ljósi þess að liðinn hafði verið töluverður tími frá uppgefnum tíma. Ef þetta var bein árás á óbreytta borgara þá telst það einnig til stríðsglæpa.

al-Sahabah stræti, Gaza: Gervihnattamynd frá 15. október 2023 þar sem byggingar hafa eyðilagst.

Árás á fjölsóttan markað

Jabalia-markaðurinn í flóttamannabúðum er fjölsóttur staður í norðurhluta Gaza. Árás var gerð á markaðinn þann 9. október. Þennan dag var óvenju margt fólk  þar sem margir höfðu flúið heimili sín vegna viðvörunar sem Ísraelsher hafði sent í skilaboðum í síma þeirra.

„Líkin voru brunnin. Ég var hræddur við að horfa. Ég vildi ekki horfa. Ég var hræddur við að horfa á andlit Imads. Líkin voru dreifð um gólfið. Allir voru að leita að börnum sínum í þessum hrúgum. Ég þekkti son minn aðeins út frá buxunum hans. Ég vildi grafa hann strax svo ég hélt á syni mínum og fór með hann út. Ég hélt á honum.“

Ziyad

Svona lýsti Ziyad því sem hann sá í líkhúsinu þar sem hann fann lík sonar síns Imad Hamad sem var 19 ára þegar hann lést. Hann var á leið á markaðinn að kaupa brauð ásamt litla bróður sínum sem hann hélt á. Ziyad lýsti því hvernig hann þurfti síðan að halda á líki sonar síns.

Örvænting Ziyad leynir sér ekki:

„Hvað hef ég gert til að eiga þetta skilið? Að missa son minn, að missa húsið mitt, að sofa á gólfinu í kennslustofu? Börnin mín pissa undir af skelfingu, af ótta, vegna kulda. Við komum ekkert nálægt þessu. Hvað gerði ég rangt? Ég ól barnið mitt upp, alla mína ævi, fyrir hvað? Að sjá hann deyja á meðan hann kaupir brauð.“

Ziyad

Á meðan rannsakandi Amnesty International talaði við Ziyad í síma féll sprenging í nágrenni við hann.

Kröfur Amnesty International

Amnesty International kallar eftir því að: 

Ísraelsk stjórnvöld: 

  • Stöðvi tafarlaust allar ólögmætar árásir og framfylgi alþjóðlegum mannúðarlögum. Það felur meðal annars í sér að leitað sé allra leiða til að draga úr líkum á að óbreyttir borgarar skaðist eða borgarleg svæði skemmist, forðast að beina árásum sínum á óbreytta borgara og á borgaraleg svæði og tryggja að árásir séu ekki handahófskenndar eða óhóflegar.
  • Tryggi greiðan aðgang mannúðaraðstoðar til óbreyttra borgara í Gaza. 
  • Aflétti ólögmætri herkví Gaza í ljósi núverandi mannúðarneyðar en hún er hóprefsing þar sem hópi óbreyttra borgara er refsað fyrir aðgerðir einstaklinga og telst sem stríðsglæpur.
  • Felli úr gildi fyrirskipun um brottflutninga sem hefur leitt til þess að ein milljón einstaklinga eru á vergangi.
  • Tryggi greiðan aðgang fyrir rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna á hernumdu svæðunum í Palestínu til að hægt verði að safna saman gögnum og vitnisburðum sem liggur á að afla.

Alþjóðasamfélagið, sérstaklega ríki í bandalagi við Ísrael, þeirra á meðal Evrópusambandsríki, Bandaríkin og Bretland:  

  • Grípi til áþreifanlegra aðgerða til að vernda óbreytta borgara á Gaza gegn ólögmætum árásum.
  • Banni vopnaviðskipti við alla aðila í átökunum í ljósi alvarlegra brota á alþjóðlegum lögum. Ríki skuli forðast að útvega Ísrael vopn og hernaðarlega aðstoð, sem felur meðal annars í sér ýmis konar tækni eins og tæknibúnað, efni og vörur, tæknilega aðstoð, þjálfun, fjármögnun eða annars konar aðstoð. Að auki verða ríkin að kalla eftir því að ríki sem útvega palestínskum vopnuðum hópum vopn láti af því.
  • Forðist að gefa út yfirlýsingu eða grípi til aðgerða sem mögulega gætu, jafnvel óbeint, réttlætt glæpi og mannréttindabrot Ísraels í Gaza.
  • Þrýsti á að Ísrael aflétti ólögmætri herkví sem hefur staðið yfir í 16 ár á Gazaströndinni og telst sem hóprefsing þar sem hópi óbreyttra borgara er refsað fyrir aðgerðir einstaklinga. Slík refsing er stríðsglæpur og gegnir lykilhlutverki í aðskilnaðarstefnu Ísraels.
  • Tryggi að Alþjóðleg sakamáladómstóllinn haldi áfram rannsókn sinni á ástandinu í Palestínu með því að veita fullan stuðning og tryggi nauðsynlegt bolmagn.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn 

Flýti rannsókn sinni á ástandinu í Palestínu og rannsaki meinta glæpi allra aðila, þar á meðal glæpi gegn mannúð og aðskilnaðarstefnu gegn palestínsku fólki. 

Hamas og aðrir vopnaðir hópar: 

Stöðvi án tafar allar árásir af ásettu ráði á óbreytta borgara, hætti að skjóta ónákvæmum flugskeytum og bindi enda á gíslatökur. Leysa þarf alla gísla úr haldi án tafar og skilyrðislaust.