Ísraelskar hersveitir og palestínskir vopnaðir hópar verða að leita allra leiða til að vernda líf óbreyttra borgara í átökum milli Ísraels og hernumdu svæða Palestínu. Átökin hófust þegar Hamas hófu að skjóta eldflaugum til Ísraels og senda vopnaða menn í hernaðaraðgerðir inn í suðurhluta Ísrael sem hefur aldrei verið gert áður.
Ísraelski herinn hefur staðfest í fjölmiðlum að óbreyttum borgurum og hermönnum hafi verið rænt af palestínskum vopnuðum hópum. Mannrán óbreyttra borgara og gíslataka eru bönnuð samkvæmt alþjóðalögum og geta talist til stríðsglæpa. Sleppa þarf öllum óbreyttum borgurum úr gíslingu heilum á húfi, skilyrðislaust og án tafar. Samkvæmt alþjóðalögum ber að veita fólki sem er haldið föngnu mannúðlega meðferð og nauðsynlega læknismeðferð.†
„Við erum harmi slegin yfir hækkandi tölum látinna óbreyttra borgara á Gaza, í Ísrael og á hernumdum svæðum Vesturbakkans. Við köllum eftir því að allir aðilar í átökunum fylgi alþjóðalögum og geri sitt allra besta til að forðast blóðsúthellingu óbreyttra borgara. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum er það skýrt að öllum aðilum í átökum ber skylda til að vernda líf óbreyttra borgara sem eru dregnir inn í átök.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Áríðandi er að ráðist sé að rót vanda þessara endurteknu átaka. Það krefst þess að alþjóðalögum sé framfylgt og bundinn verði endi á 16 ára herkví sem Ísrael hefur staðið fyrir á Gaza og aðskilnaðarstefna Ísraels gegn palestínsku fólki verði afnumin. Ísraelsk stjórnvöld verða að forðast að kynda undir átök og spennu á hernumdum svæðum Vesturbakkans, þar með talið Austur-Jerúsalem, þá sérstaklega nærri trúarlegum svæðum.
Amnesty International kallar eftir því að alþjóðasamfélagið grípi inn í sem fyrst til að vernda óbreytta borgara og koma í veg fyrir frekari þjáningar.
„Árásir af ásettu ráði á óbreytta borgara og handahófskenndar og ónákvæmar árásir sem skaða og drepa óbreytta borgara teljast til stríðsglæpa. Ísrael á sér langa og hryllilega sögu refsilausra stríðsglæpa í fyrri átökum við Gaza. Palestínskir vopnaðir hópar verða að forðast að óbreyttir borgarar verði að skotmörkum og að nota ónákvæm vopn eins og þeir hafa gert áður og jafnvel í meira mæli núna. Þessir verknaðir teljast einnig til stríðsglæpa.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Bakgrunnur
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hóf rannsókn árið 2021 til að rannsaka ástandið í Palestínu. Dómstóllinn hefur umboð og lögsögu til að taka til umfjöllunar glæpi allra aðila sem falla undir alþjóðalög í yfirstandandi átökum og glæpi gegn mannúð vegna aðskilnaðarstefnu gegn palestínsku fólki.
Frá árinu 2007 hefur Ísrael lokað Gaza-svæðið algjörlega af með herkví úr lofti, landi og sjó. Með því er öllum íbúum svæðisins refsað. Í júní 2023 gaf Amnesty International út rannsókn sína um árásir á Gaza-svæðið í maí sama ár. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að Ísraelsríki hefði eyðilagt heimili palestínsks fólks með ólögmætum hætti og oft án hernaðarlegrar nauðsynjar. Með þessum aðgerðum var verið að refsa óbreyttum borgurum á svæðinu fyrir verknaði einstaklinga í átökum en slík refsing getur talist sem stríðsglæpur.
Í skýrslu Amnesty International frá febrúar 2022 kemur fram að ísraelskar hersveitir hafi brotið gegn Rómarsáttmálanum og samningi um afnám aðskilnaðarstefnu vegna víðtækra og kerfisbundinna árása á óbreyttra borgara. Það er hluti af kerfi til að kúga og ná yfirráðum yfir palestínsku fólki og telst vera aðskilnaðarstefna sem er glæpur gegn mannúð.
