Ísrael: Tryggja þarf mannúðaraðstoð til Gaza

Alþjóða­dóm­stóllinn í Haag (ICJ) gaf út bráða­birgðanið­ur­stöðu þann 26. janúar um að raun­veruleg hætta sé á hópmorði á palestínskum íbúum Gaza. Amnesty International kallar á Ísraelsríki að hlíta fyrirskipun Alþjóðadómstólsins og að veita fólki á Gaza skilvirka grunnþjónustu og mannúðaraðstoð án tafar.

Á meðan beðið er eftir endanlegri niðurstöðu vegna ásakana Suður-Afríku á hendur Ísrael um að verið sé að fremja hópmorð , samkvæmt skilgreiningu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um hópmorð, hefur dómstóllinn fyrirskipað sex bráðabirgðaráðstafanir sem Ísrael þarf að gera.

Þar á meðal að Ísrael geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir aðgerðir sem falla undir sáttmála Sameinuðu þjóðanna um hópmorð og tryggi að hægt sé að veita óbreyttum borgurum á Gaza nauðsynlega þjónustu og mannúðaraðstoð. 

Samt sem áður eykst þunginn í skelfilegum árásum Ísraelshers á Gaza. Ísraelsher hótar landhernaði á borgina Rafah, að viðhalda umsátri sem er að nánast öllu leyti ólöglegt og ómannúðlegt og hefta  aðgang lífsnauðsynlegrar mannúðaraðstoðar. 

SMS-félagar krefjast þess að forsætisráðherra Ísraels komi í veg fyrir að mannúðarneyðin aukist enn frekar og framfylgi úrskurði Alþjóðadómstólsins með því  að tryggja mannúðaraðstoð og læknisaðstoð fyrir alla íbúa Gaza í samræmi við alþjóðalög.  

Palestínskt flóttafólk leita skjóls í tjöldum hjá UNRWA í október 2023 Mynd: Majdi Fathi/NurPhoto via Getty Images