Jabeur Mejri var leystur úr haldi þann 4. mars síðastliðinn. Hann er túnískur samviskufangi sem var tvö ár í fangelsi fyrir að birta greinar á netinu og skopmyndir sem sagðar voru móðgun við íslam.
Jabeur Mejri var leystur úr haldi þann 4. mars síðastliðinn. Hann er túnískur samviskufangi sem var tvö ár í fangelsi fyrir að birta greinar á netinu og skopmyndir sem sagðar voru móðgun við íslam.
Mál Jabeur Mejri var tekið fyrir í bréfamaraþoni Amnesty International í desember 2013.
Fréttirnar eru mikill léttir fyrir fjölskyldu hans og sigur fyrir allt það fólk sem barðist fyrir hans hönd. Aldrei hefði átt að ákæra Jabeur Mejri fyrir að tjá skoðanir sínar. Ekki er nóg að hann hafi verið náðaður. Túnísk yfirvöld verða að fella dóminn yfir honum úr gildi og hreinsa nafn hans í eitt skipti fyrir öll.
Forseti landsins náðaði Jabeur Mejri þann 19. febrúar 2014, en dómurinn yfir honum er enn á sakavottorði hans. Hann var ekki leystur úr haldi strax þar sem að ákæra á hendur honum fyrir fjársvik var lögð fram í janúar 2014. Áfrýjunarréttur samþykkti að leysa hann úr haldi meðan rannsókn þess máls stendur yfir.
Jabeur Mejri neitar ásökunum um fjársvik og lögfræðingur hans segir að engin sönnunargögn hafi verið lögð fram sem styðji þær ásakanir. Amnesty International óttast að ákæran hafi verið lögð fram til að ógna honum enn frekar.
Undir stjórn fyrrum forseta landsins, Ben Ali, sem steypt var af stóli í janúar 2011, var algengt að sökum væri logið upp á fólk og það dæmt til fangelsisvistar vegna pólitískra skoðana sinna.
Jabeur Mejri var tvö ár í fangelsi fyrir að tjá skoðanir sínar, sem er stjórnarskrárvarinn réttur hans samkvæmt nýrri stjórnarskrá Túnis. Yfirvöld verða að standa við skuldbindingar sínar og verja tjáningarfrelsi í landinu.
Amnesty International hvetur einnig túnísk stjórnvöld til að breyta lögum frá stjórnartíð fyrrum forseta landsins sem gera refsivert að tjá skoðanir sínar með friðsamlegum hætti, meðal annars greinar 121(3) og 226 í hegningarlögum landsins, en þær greinar voru notaðar til að sakfella Jabeur Mejri.
