Fleiri en hundrað einstaklingar eru í haldi að geðþótta fyrir það eitt að nýta tjáningarfrelsið og koma saman friðsamlega. Í Kamerún er herjað á fylgjendur stjórnarandstöðunnar, baráttufólk fyrir mannréttindum, mótmælendur og annað baráttufólk.
Dorgelesse Nguessan er hárgreiðslukona og einstæð móðir 17 ára drengs. Hún tók þátt í kröfugöngu í september 2020 sem stjórnvöld höfðu bannað. Kröfugangan fór friðsamlega fram en lögregla notaði táragas og vatnssprengjur til að dreifa mótmælendum og handtók yfir 500 einstaklinga. Dorgelesse var ein af þeim. Fjöldi fólks tilkynnti misbeitingu valds, pyndingar og slæma meðferð í varðhaldi. Dorgelesse var fyrst í haldi á lögreglustöð í Douala. Þar var henni bannað að fá heimsóknir og fékk ekki að fara í sturtu. Lögreglumaður reyndi að brjóta á henni kynferðislega. Hún var dæmd í fimm ára fangelsi fyrir uppreisn.
Intifalia Oben er 29 ára fjárfestir og styður MRC (endurreisnarflokkur í Kamerún). Hann fékk einnig fimm ára fangelsisdóm. Hann var handtekinn eftir að hafa pantað sérhannaða boli með pólitískum skilaboðum á. Hann var ákærður fyrir uppreisn, tilraun til byltingar o.fl. Hann varð fyrir illri meðferð og þurfti að leita sér læknisaðstoðar á spítala í maí 2021. Þar var honum haldið í handjárnum í tvær vikur.
Penn Terence Khan er fjögurra barna faðir og aðstoðarskólastjóri í grunnskóla í Bambili, enskumælandi svæði. Hann var handtekinn 2017 fyrir að taka þátt í verkfalli. Hann sætti einnig illri meðferð og fékk 12 ára fangelsi.
Tsi Conrad, 35 ára blaðamaður frá Bamenda (enskumælandi svæði), heimildargerðamaður og baráttumaður fyrir mannréttindum, greindi frá mótmælunum sem áttu sér stað á enskumælandi svæði Kamerún. Hann var handtekinn 2016 þar sem hann fjallaði um mótmæli og lögregluofbeldi en lögregla hafði skotið á mótmælendur. Hann var dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir hryðjuverk og fleira.
Síðan 2016 hafa fleiri en hundrað einstaklingar verið handteknir í tengslum við MRC mótmæli fyrir það eitt að nýta tjáningarfrelsið og réttinn til að koma saman friðsamlega. Að auki hefur ekki verið staðið rétt að réttarhöldunum.
Sms-félagar krefjast þess að handtökur að geðþótta í Kamerún endi!
