Kenía: Yfir tvö þúsund manns í hættu á að vera rekin með valdi af heimilum sínum

Íbúar fátækrahverfisins The Deep Sea í Naíróbí, höfuðborg, Kenía eiga á ný í hættu á að missa heimili sitt. Þann 1. febrúar tilkynntu yfirvöld að íbúar hefðu aðeins fjóra daga til að rýma svæðið svo hægt væri að ryðja fyrir gerð vegar sem er fjármagnaður af Evrópusambandinu. Ef íbúar yfirgæfu ekki svæðið fyrir þann tíma myndu yfirvöld reka íbúa á brott með valdi.

Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!

The Deep Sea er fátækrahverfi í Nairóbí en þar búa í kringum 12.000 íbúar. Frá árinu 2009 hefur verið yfirvofandi hætta fyrir íbúa á útburði vegna fyrirhugaðrar vinnu vegargerðarinnar í Kenía (KURA) við gerð vegar sem gengur undir nafninu Týndi hlekkurinn (e. the Missing Link). Verkefnið er fjármagnað af Evrópusambandinu. Vegurinn myndi fara í gegnum miðstöð verslunar og aðalveg hverfisins og hefði þar af leiðandi neikvæð áhrif á um 2.000 íbúa. Lengd vegarins verður um 1,6 km og er byggður til að tengja tvo aðalvegi, Limuru-veg og Thika-veg.

Réttur til fullnægjandi húsnæðis er settur fram í stjórnarskrá Kenía en auk þess ber yfirvöldum skylda til, samkvæmt mannréttindasáttmálum, að forðast og koma í veg fyrir útburð fólks. Efnahags-, félags- og menningarréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna leggur áherslu á að útburður sé allra síðasta úrræði þegar allar mögulegar leiðir hafa verið kannaðar og að farið hefur verið eftir réttarfarsreglum og lagalegri réttarvernd, t.d. viðræðufundur haldinn með íbúum, nægur fyrirvari veittur, boðið upp á fullnægjandi valkost á öðru húsnæði, skaðabætur veittar sem og aðgangur að lagalegu úrræði. Stjórnvöldum ber að tryggja að einstaklingar missi ekki heimili sín eða verði berskjaldaðir fyrir mannréttindabrotum vegna útburðar. Ef hægt er að réttlæta útburðinn ber ríkjum samt sem áður, samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum, að ganga úr skugga um að verndarráðstafanir séu til staðar og aðgangur að réttlátri málsmeðferð.

SMS-félagar krefjast þess að íbúar svæðisins verði ekki reknir á brott með valdi og verði þar af leiðandi heimilislausir, ásamt því að samningaviðræður um endurbúsetu haldi áfram og Kenía uppfylli skyldur sínar á sviði mannréttinda, hvað varðar útburð, bæði á lands- og alþjóðavísu.

Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!