Mannréttindafrömuðurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Wangari Maathai fékk þrjár líflátshótanir þann 19. febrúar síðastliðinn í gegnum smáskilaboð.
Mannréttindafrömuðurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Wangari Maathai fékk þrjár líflátshótanir þann 19. febrúar síðastliðinn í gegnum smáskilaboð. Í skilaboðunum stóð: „Prófessor Wangari Maathai, vegna sífelldrar andstöðu þinnar við stjórnvöld öllum stundum höfum við ákveðið að leita þig uppi. Þú ert sú þriðja í röðinni á eftir Were, gættu lífs þíns“. Tvær manneskjur sem vinna fyrir Maathai hafa einnig fengið svipaðar hótanir. Hótanirnar koma frá útlagagengi af Kikuyu þjóðarbrotinu, sem hefur lýst yfir ábyrgð á öðrum morðum og limlestingum.
Prófessor Wangari Maathai er fyrrverandi alþingiskona og af Kikuyu þjóðarbrotinu. Í skilaboðunum er vitnað til þingmannsins Melitus Mugabe Were sem var drepinn fyrir utan húsið sitt í Nairobi 29. janúar síðastliðinn. Annar þingmaður, David Kimutai Too, var drepinn þann 31 janúar.
Prófessor Wangari Maathai telur hótanirnar koma í kjölfar gagnrýni hennar í garð stjórnmálamanna sem eru hliðhollir stjórnarflokknum PNU (Party of National Unity) og ákalls hennar til Kibaki forseta og Odinga, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, að ná samkomulagi um hvernig bregðast eigi við þeirri pólitísku ólgu sem nú ríkir í landinu.
Lögreglan tók nýlega ákvörðun um að hætta að veita Wangari Maathai lífvarðaþjónustu en hún hefur verið undir vernd lögreglulífvarðar síðan hún fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2004.
Átakaalda hefur riðið yfir Kenýa í kjölfar kosninganna og skipunar Mwai Kibaki í embætti forseta þann 30. desember síðastliðinn. Átök hafa átt sér stað víðsvegar um landið. Borist hafa frásagnir af ofbeldisfullri hegðun lögreglu gagnvart mótmælendum, m.a hafa borist fregnir af því að mótmælendur hafi verið skotnir og drepnir af lögreglu.
Margar árásir hafa verið gerðar á Kikuyu fólk, ráðist hefur verið á það með sveðjum, steinum, bareflum og með bogum og örvum. Yfir 1.000 manns hafa látist í þessari ofbeldishrinu og hafa Sameinuðu þjóðirnar sagt frá að yfir 300.000 manns hafi þurft að yfirgefa heimili sín. Þúsundir manna hafa flúið yfir landamærin til Úganda og Tansaníu. Friðarviðræður, sem leiddar eru af Kofi Annan, hafa þó borið nokkurn árangur og hefur ofbeldinu að mestu linnt síðan í byrjun febrúar.
Gríptu til aðgerða:
Hér er fyrirframskrifað bréf sem þú getur sent til forseta Kenýa
Einnig geturðu sent bréfið í faxi eða tölvupósti:
Fax: +254 20 313600
Tölvupóstur: pps@statehousekenya.go.ke
