Ni Yulan hefur starfað sem lögfræðingur í 18 ár. Á starfsferli sínum hefur hún fengist við mörg viðkvæm mál er tengjast mótmælum fólks, sem horfir upp á að heimili sín séu eyðilögð.
Ni Yulan: Í hjólastól eftir pyndingar kínverskra stjórnvalda
Við þrýstum nú á kínversk stjórnvöld að hætta ofsóknum gegn baráttukonunni Ni Yulan og láta af þvinguðum brottflutningum í landinu.
Taktu þátt í aðgerð okkar hér:
Ni Yulan hefur starfað sem lögfræðingur í 18 ár. Á starfsferli sínum hefur hún fengist við mörg viðkvæm mál er tengjast mótmælum fólks, sem horfir upp á að heimili sín séu eyðilögð. Hún og fjölskylda hennar hafa greitt baráttu sína dýru gjaldi.
Árið 2002 var Ni Yulan handtekin þegar hún kvikmyndaði niðurrif á húsi í Peking. Hún var færð á lögreglustöð og pynduð í nokkra daga. Fótleggir hennar og hnéskeljar voru brotin. Meiðsli hennar voru svo alvarleg að hún þarf enn að nota hjólastól.
Hún afplánar nú tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að „efna til deilna og valda vandræðum“. Þetta er í þriðja sinn sem henni er haldið svo mánuðum skiptir og enn ein tilraun yfirvalda til að þagga niður í henni.
Ni Yulan þjáist af hjartveiki, meltingarerfiðleikum, á erfitt með andardrátt og getur ekki gengið pyndinga lögreglu. Hún má ekki lengur starfa sem lögfræðingur og hefur þurft að lifa á götunni. Hún hefur engu að síður haldið áfram mannréttindastarfi sínu og veita fólki lögfræðilega aðstoð.
Svipt leyfi til að starfa sem lögfræðingur
Ni Yulan kvartaði til yfirvalda vegna barsmíða, sem hún hlaut, en var þá handtekin og dæmd í ársfangelsi. Hún var einnig svipt leyfi til að starfa sem lögfræðingur.
Þegar hún losnaði úr fangelsi hélt hún áfram að berjast fyrir rétti fólks sem átti að hrekja af heimilum sínum í aðdraganda Ólympíuleikanna í Peking 2008. Hún var dæmd í 2 ára fangelsi og var pynduð og neitað um læknisaðstoð.
Neydd af heimili sínu og heimilum vina sinna
Þegar henni var sleppt árið 2010 voru Ni Yulan og eiginmaður hennar, Dong Jiqan, bæði heimilislaus. Lögreglan neyddi þau til að yfirgefa hótelið sem þau dvöldust á og meinuðu þeim um að fá sér leiguhúsnæði eða búa hjá vinum. Loks, eftir mótmæli stuðningsfólks þeirra, fengu þau að flytja inn á gistiheimili en sættu eftirliti og fengu ekki aðgang rafmagni, vatni og netsambandi.
Dæmd fyrir að „efna til deilna“
Ni Yulan þurfti á súrefnistæki að halda mestan þann tíma sem réttarhöldin yfir henni, í desember 2011, stóðu yfir. Hún var dæmd þann 10. apríl 2012 fyrir að „efna til deilna og valda vandræðum“ (293. grein kínverskra hegningarlaga). Eiginmaður hennar var einnig dæmdur.
Þvingaðir brottflutningar í Kína
Þvingaðir brottflutningar hafa aukist mjög í Kína undanfarin tvö ár í kjölfar tilrauna margra sveitafélaga til að borga niður skuldir með því að selja landareignir, án tillits til íbúa svæðisins. Sveitastjórnir og verktakar hafa ráðið glæpagengi, vopnuð hnífum og stálrörum. Í nýrri skýrslu Amnesty International, Standing Their Ground, er fjallað um 40 tilfelli þvingaðra brottflutninga í Kína. Í 9 tilfellum af 40 skráði Amnesty International dauðsföll sem hlutust af valdbeitingu við brottflutningana. Í einu tilviki grófst sjötug kona lifandi undir húsarústum þegar hús hennar var rifið í Wuhan-borg í mars 2010. Þann 15. júní 2011 tók lögreglan í Wenchang 20 mánaða gamalt barn frá móður sinni og neitaði að afhenda henni aftur barnið fyrr en hún væri búin að skrifa undir leyfi um brottflutning. Þá hefur Amnesty International skráð fjöldann allan af tilvikum þar sem fólk hefur sætt ofbeldi lögreglu við brottflutninga.
