Kína: Kanadískur maður hlýtur dauðadóm eftir eins dags endurupptöku

Robert Schellenberg, kanadískur ríkisborgari, hlaut dauðadóm í Kína eftir að hafa verið handtekinn fyrir smygl á vímuefnum. Hann var fyrst handtekinn árið 2014 og dæmdur í 15 ára fangelsi af millidómstól í Dalian, Kína, þann 20. nóvember 2018. Schellenberg áfrýjaði og þann 14. janúar 2019 við endurupptöku á málinu, var hann fundinn sekur um enn alvarlegri brot á vímuefnalöggjöf landsins og dæmdur til dauða. Samkvæmt einum af lögfræðingum Schellenberg, Mo Shaoping, er sakfellingin fordæmislaus.

Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!

Schellenberg hlaut fyrst 15 ára dóm en við áfrýjun fóru dómstólar fram á endurupptöku þar sem dómurinn þótti of mildur. Þetta þykir óvanalegt í kínversku réttarfari.

Málsmeðferð endurupptökunnar þótti mjög óréttlát. Samkvæmt einum af lögmönnum Schellenberg tók næstum fjögur ár að kveða upp fyrsta dóminn og dómstólar fengu álit á viðeigandi refsingu. Endurupptakan tók aðeins einn dag.

Skýrsla Amnesty International um notkun dauðarefsingarinnar á heimsvísu árið 2017 sýnir fram á að hún sé mikið notuð í Kína vegna vímuefnaglæpa. Það eru einungis fimm ríki sem beita dauðarefsingunni við þess lags glæpi en þeir teljast ekki til alvarlegustu glæpi sem notkun dauðarefsingarinnar takmarkast við samkvæmt alþjóðlegum lögum.

Ítarleg rannsókn, sem birt var í apríl 2017, China‘s deadly Secrets, sýnir fram á að þrátt fyrir að yfirvöld í Kína haldi því fram að verið sé að auka gagnsæi í réttarkerfinu, er ýmislegt falið, til að hylma yfir þeim gríðarlega fjölda aftaka sem eiga sér stað í Kína.

Amnesty International leggst gegn dauðarefsingum í öllum tilfellum.