Kínversk stjórnvöld hafa undanfarið gripið til margvíslegra ráðstafana til að hamla starfi lögfræðinga og draga úr þeim að taka að sér mál er varða mannréttindi.
Kínversk stjórnvöld hafa undanfarið gripið til margvíslegra ráðstafana til að hamla starfi lögfræðinga og draga úr þeim að taka að sér mál er varða mannréttindi.
Ný skýrsla Amnesty International, sem ber heitið Against the Law – Crackdown on China’s Human Rights Lawyers Deepens, lýsir því hvernig ríkisvaldið hefur hert viðleitni sína til að hafa hemil á lögfræðingum undanfarin tvö ár. Aðgerðir stjórnvalda hafa mjög eflst undanfarna mánuði.
Yfirvöld reyna nú að þagga niður í mannréttindalögfræðingum. Starfsleyfi þeirra eru afturkölluð, þeir eru áreittir, sæta þvinguðum mannshvörfum eða jafnvel pyndingum.
Stjórnvöld óttast „jasmínbyltingu“ í kjölfar mikilla mótmæla í Arabaheiminum og hafa handtekið fjölmarga sem hafa gagnrýnt yfirvöld, baráttufólk og netverja frá því í febrúar 2011.
Aðgerðir stjórnvalda beinast einnig að lögfræðingum sem tengjast málefnum eins og trúfrelsi, tjáningarfrelsi og landréttindum.
Mannréttindalögfræðingar verða fyrir aðkasti yfirvalda vegna þess að þeir reyna að nota lögin til að vernda borgarana gegn brotum ríkisvaldsins. Stjórnvöld verða tafarlaust að leysa haldi alla sem hafa verið hnepptir í varðhald eða sætt þvinguðu mannshvarfi fyrir að berjast fyrir grundvallarréttindum.
Lögfræðingar í Kína þurfa að undirgangast árlegt mat sem margir telja að eigi sér enga stoð í kínverskum lögum. Yfirvöld í landinu meta lögfræðifyrirtæki og samtök lögfræðinga, sem eiga að heita sjálfstæð, meta sjálfstætt starfandi lögfræðinga. Lögfræðingar sem voga sér að taka upp viðkvæm mál, eins og mannréttindamál, standast oft ekki þetta árlega mat og missa því starfsleyfi sitt.
Ef árlegt mat eða hótanir duga ekki til að forða því að lögfræðingar taki að sér slík mál er þaggað niður í þeim með aðferðum sem brjóta í bága við alþjóðleg mannréttindaákvæði eða jafnvel kínversk lög.
Þrýstingur, hótanir og ofsóknir hafa gert að verkum að mannréttindalögfræðingar eru ekki margir. Lögfræðingar í landinu eru rúmlega 204.000, en einungis nokkur hundruð hugaðir einstaklingar hætta á að taka að sér mál er snerta mannréttindi.
Nýjar reglugerðir sem innleiddar voru 2009-2010 hindra lögfræðinga í að taka að sér mál ákveðinna einstaklinga, ræða mál þeirra við fjölmiðla eða fást við réttarmisferli. Þær gera yfirvöldum einnig auðveldara að ákæra lögfræðinga fyrir að „hvetja til undirróðurs“ þegar þeir taka að sér málsvörn einstaklinga.
Þetta hefur gert þeim sem helst þurfa hjálpar við erfiðara að fá viðunandi lögfræðiaðstoð.
Meðal þeirra eru fólk sem er ákært fyrir að tilheyra ólöglegum andlegum hreyfingum eins og Falun Gong-hreyfingunni, tíbetskir og úgúrskir andófsmenn, fórnalömb þvingaðra brottflutninga, eða þeir sem andæfa viðbrögðum stjórnvalda við hamförum eða málefnum er varða fæðuöryggi.
Einstaklingar sem hafa mátt þola pyndingar og ólögmæta varðhaldsvist eiga sérstaklega erfitt að finna viðunandi lögfræðiaðstoð. Meðal þeirra eru einstaklingar sem eiga dauðarefsingu yfir höfði sér vegna játninga sem fengnar voru með pyndingum.
Amnesty International hvetur stjórnvöld til að veita aftur starfsleyfi til lögfræðinga sem hafa misst þau vegna starfa sinna að mannréttindamálum og fá málefni lögfræðinga í hendur lögfræðisamtaka, sem sannarlega eru sjálfstæð, eins og alþjóðasamningar kveða á um og margir í Kína kalla eftir.
Vernda verður lögfræðinga. Einungis þá munu þeir geta starfað með eðlilegum hætti að því að vernda mannréttindi og skapa réttlátt samfélag.
LESTU MEIRA
Against The Law – Crackdown on China’s Human Rights Lawyers Deepens (Report, 30 June 2011)
Against the law: Crackdown on China’s human rights lawyers deepens: Update on Background (Update, 30 June 2011)
