Tashpolat Tiyip, fyrrum rektor Háskólans í Xinjiang, var dæmdur til dauða eftir leynileg og óréttlát réttarhöld og stendur nú frammi fyrir yfirvofandi aftöku í Kína. Hann hvarf sporlaust árið 2017 og síðan þá hefur hann verið í varðhaldi af geðþótta. Engar upplýsingar hafa verið gefnar upp um sakargiftir, framvindu málsins né staðsetningu hans.
Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér! Sendu svo AKALL í númerið 1900 til að skrifa undir málið.
Tashpolat Tiyip var rektor Háskólans í Xinjiang þegar hann hvarf sporlaust árið 2017 á leið sinni til Þýskalands á ráðstefnu með hópi nemenda. Hann var leynilega sakfelldur fyrir ,,aðskilnaðarstefnu” í óréttlátum réttarhöldum og dæmdur til ,,skilorðsbundins dauðadóms” sem felur í sér að breyting á dómi geti átt sér stað eftir tvö ár í fangelsi ef aðrir glæpir eru ekki framdir. Hann stendur nú frammi fyrir yfirvofandi aftöku.
Úígúrar er þjóðarbrot á sjálfstjórnarsvæði þess í Xinjiang í Kína og langflestir þeirra eru múslimar. Frá því á níunda áratugnum hafa Úígúrar orðið fyrir kerfisbundnum mannréttindabrotum. Rannsókn Amnesty International sem birt var í apríl 2017, e. China‘s Deadly Secrets, varpar ljósi á leynilegt réttarkerfi sem stjórnvöld í Kína beita til að fela aftökur þar í landi. Rannsóknin sýndi að hundruð aftaka voru ekki skráðar í opinberan gagnagrunn eins kínversk lög gera ráð fyrir. Þetta átti einkum við í Xinjiang héraði.
Amnesty International er andvígt dauðarefsingum undir öllum kringumstæðum. Dauðarefsingin er brot á réttinum til lífs og er grimmileg, ómannúðleg og niðurlægjandi refsing.
Við krefjumst þess að dauðadómur Tashpolat Tiyip verði felldur niður. Við krefjumst einnig að hann verði leystur úr haldi umsvifalaust án skilyrða, nema fyrir liggi fullnægjandi sönnunargögn um að hann hafi framið alþjóðlega viðurkenndan glæp.
