Kólumbía: mannréttindabrot á verkalýðsfrömuðum

Verkalýðsfrömuðir hafa ítrekað orðið fórnarlömb mannréttindabrota í Kólumbíu, þar sem í áraraðir hafa geisað innanlandsátök.

Frá jarðarför Hernan de Jesus Ortiz, aðstoðarframkvæmdastjóra Kennararasambands Caldas í Manisales í Kólumbíu í apríl 2002. Morðið á honum kom í kjölfar margra líflátshótana gegnum árin.

Verkalýðsfrömuðir hafa ítrekað orðið fórnarlömb mannréttindabrota í Kólumbíu, þar sem í áraraðir hafa geisað innanlandsátök. Þeir hafa sætt ofsóknum bæði vegna starfa sinna í þágu réttinda verkafólks og einnig á grundvelli stjórnmálatengsla.

Á síðustu tuttugu árum hafa meira en tvö þúsund verkalýðsfrömuðir verið drepnir og hátt í tvö hundruð horfið sporlaust í Kólumbíu. Örfáir hafa verið sóttir til saka vegna þessara morða og „mannshvarfa“. Kólumbísk yfirvöld hafa gert ýmsar ráðstafanir til að auka öryggi fólks sem vinnur að verkalýðsmálum og á undanförnum árum hefur lítillega dregið úr morðum en ástandið er þó enn mjög alvarlegt. Amnesty International telur að nauðsynlegt sé að grípa til mun víðtækari aðgerða til að tryggja félagafrelsi og öryggi verkalýðsfrömuða.

Þrátt fyrir tilraunir til að afvopna hópa sem studdir eru af hernum, er verkalýðsfrömuðum enn ógnað og þeir drepnir. Amnesty International telur að bæði herinn og vopnaðir hópar tengdir honum vinni skipulega að því að grafa undan starfi verkalýðsfélaga, bæði með morðum og með því að ófrægja og grafa undan lögmæti þeirra.

Amnesty International telur að alþjóðasamfélagið beri ábyrgð á því að tryggja félagafrelsi í Kólumbíu. Á síðasta ári ákvað Alþjóðavinnu-málastofnunin að skipa eftirlitsfulltrúa sem hefur það hlutverk að rannsaka og fylgjast með því hvernig félagafrelsi er framfylgt í landinu. Það er kjörið tækifæri fyrir alþjóðasamfélagið til að fylgjast náið með þeirri mannréttindakreppu sem verkalýðsfrömuðir í Kólumbíu standa frammi fyrir. Einnig er skipun fulltrúans mikilvæg til að tryggja að kólumbísk yfirvöld grípi til raunhæfra aðgerða í þágu öryggis verkalýðsfrömuða.

Luciano Enrique Romero, einn leiðtoga Alþýðusambands fólks í matvælaiðnaðinum (Sindicato Nacional de Trabajadores de la Industria de Alimentos var myrtur í september 2005. Lík hans fannst þann 11. september 2005. Hendur hans voru bundnar og á líkama hans voru yfir 40 stungusár. Auk starfa sinna fyrir Alþýðusambandið var Luciano Romero einn leiðtoga mannréttindasamtakanna Samstöðunefnd pólitískra fanga (Comité de Solidaridad con los Presos Políticos). Luciano Romero hafði verið boðið til Sviss frá 29.-30. október 2005 til að vitna um morðhótanir gegn verkalýðsfrömuðum sem unnu fyrir starfsfólk í verksmiðjum Nestlé í Kólumbíu.