Kólumbía: Þúsundir frumbyggja þarfnast brýnnar aðstoðar

Í frumbyggjasamfélagi Bojayá Chocó í Vestur-Kólumbíu er 2.250 manns haldið í herkví af skæruliðahópnum Ejército de Liberación Nacional, ELN og herþjálfaða hópnum Autodefensas Gaitanistas de Colombia. Hóparnir neita frumbyggjunum um aðgang að mat og læknisaðstoð. Við krefjumst þess að kólumbísk yfirvöld setji fram alhliða áætlun til verndar réttindum Bojayá- samfélagsins.

Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér! Sendu svo AKALL í númerið 1900 til að skrifa undir málið.

Frumbyggjasamfélög í Chocó-héraði í Kólumbíu hafa mátt þola alvarleg mannréttindabrot síðastliðin ár vegna átaka, þar á meðal þvingaða brottfluttninga og fjöldamorð framin af skæruliðum, herþjálfuðum hópum og kólumbíska hernum.

Árið 2002 gaf skrifstofa umboðsmannsins í Kólumbíu út að stjórnvöld höfðu brugðist verndarhlutverki sínu gagnvart frumbyggjasamfélaginu í Bojayá. Þúsundir manna hafa látist frá því að fjöldamorðin „Bojayá Massacre” áttu sér stað þann 2. maí 2002 vegna átaka á svæðinu milli FARC og herþjálfaðra hópa. Aðgerðaleysi stjórnvalda á svæðinu ýtir undir mannréttindabrot.

Árið 2017 varaði Amnesty International við því að aðgerðaleysi stjórnvalda ýtti undir berskjöldun minnihlutahópsins á svæðinu. Þann 24. apríl 2019 kallaði Amnesty International eftir aðgerðum stjórnvalda til verndar samfélaginu á Bojayá Chocó-svæðinu þar sem um 7.000 manns standa frammi fyrir lífshættulegum þvinguðum brottflutningi.

Þann 18. október 2019 lýsti skrifstofa umboðsmannsins í Kólumbíu því yfir að vopnaðir hópar væru enn starfræktir á svæðinu og í nóvember skrifuðu frumbyggjasamtök á svæðinu opið bréf til forsetans til að beina sjónum að mannréttindabrotum sem frumbyggjasamfélagið í Chocó sætir og kröfðust verndar stjórnvalda.

Við krefjumst þess að stjórnvöld í Kólumbíu geri yfirgripsmikla áætlun í samvinnu við frumbyggjasamfélagið sem veiti greiðan aðgang að grundvallarþjónustu og tryggi vernd samfélagsins gegn árásum vopnaðra hópa.